Innlent

Margar leiðir til að finna fólk

Smári Sigurðsson, hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra, segir beiðni ekki hafa borist frá utanríkisráðuneytinu um aðstoð við að reyna að hafa uppi á þeim Íslendingum sem hugsanlega gætu verið á hættusvæðum í Asíu. Ekki er vitað hvar fimmtán Íslendingar eru niðurkomnir í Asíu. Fjórir eru taldir hafa getað verið á hættusvæðunum þegar flóðbylgjan reið yfir. Smári segir lögregluna hafa ýmis ráð til að hafa uppi á fólki. Fyrst sé það að hafa samband við yfirvöld í viðkomandi landi. Síðan eru Norðurlöndin í lögreglusamstarfi og á vegum þess eru lögreglumenn víðs vegar um heiminn og eru tveir starfandi í Bangkok. Alþjóðadeildin hefur því aðgang að þessum mönnum sem eru á staðnum og þekkja kerfið þar. Hann segir þeirra hlutverk vera að liðka fyrir ýmsum málefnum sem kunna að koma upp. Smári segir ekki óalgengt að leitað sé að fólki sem hefur ekkert til saka unnið. Meðal annars er hægt að athuga kortaviðskipti en það er þá gert að beiðni ættingja. Síðan er það greiðslukortafyrirtækjanna að taka ákvörðun um hvort slíkar upplýsingar verði veittar og geta þau krafist dómsúrskurðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×