Innlent

Sjálfstæði Gæslunnar varðveitt

Georg Lárusson, nýráðinn forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir mikilvægt að varðveita sjálfstæði hennar og telur ekki koma til greina að fella hana undir embætti Ríkislögreglustjóra eins og raunin varð með Almannavarnir. Georg segir að hans fyrsta verk verði að kynna sér starfsemina og reyna að endurnýja úrsérgenginn tækjakost hennar sem sé orðinn býsna gamall. Skipulagsbreytingar munu eiga sér stað, m.a. að stjórnstöðin flyst upp í Skógarhlíð og vera þar rekin í samstarfi við 112 en engu að síður undir forræði Landhelgisgæslunnar. Aðrar breytingar eru ekki ljósar eins og er. Georg segir ekki koma til greina að fella Gæsluna undir embætti Ríkislögreglustjóra því ljóst sé að hún þurfi að vera öflugt og sjálfstætt fyrirtæki, m.a. með hliðsjón af mikilvægi fiskveiða og útgerðar á Íslandi. Kurr hefur staðið um Landhelgisgæsluna vegna fjárskorts. Spurður hvort vilji sé fyrir hendi að bæta úr þessu segir Georg telja að almennur vilji sé í landi fyrir því að rekin sé öflug landhelgisgæsla. Það byrji þó allt og endi með peningum og hann kveðst vita að dómsmálaráðherra hafi vilja til að gera breytingar þarna á.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×