Innlent

Með 850 grömm af kókaíni

Brasilísk kona hefur verið úrskurðuð í þriggja vikna gæsluvarðhald fyrir að reyna að smygla til landsins 850 grömmum af kókaíni. Konan, sem er 26 ára gömul, var handtekin á Keflavíkurflugvelli á mánudagskvöld en við hefðbundna leit í tollinum kom í ljós að hún hafði límt pakkningar með kókaíni við innanvert læri á sér. Líklegt þykir að konan sé burðardýr en enginn annar hefur verið handtekinn vegna málsins. Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, segir að oft reynist erfitt að handtaka tengiliði slíkra burðardýra sökum skorts á sönnunargögnum en grunur sé vissulega fyrir hendi. Þetta er fjórða kókaínsendingin sem stöðvuð er á Keflavíkurflugvelli í mánuðinum og var lagt hald á um 1,8 kíló í þessum tilfellum, en það er meira en allt haldlagt kókaín á Íslandi í fyrra. Jóhann segir að lagt hafi verið hald á óvenjumikið af hörðum efnum og margt bendi til þess að neyslumynstur fíkniefna sé að breytast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×