Innlent

Skattrannsókn aftur til lögreglu

Skattrannsóknarstjóri hefur vísað rannsókn á ákveðnum þáttum skattamála Baugs aftur til embættis ríkislögreglustjóra til meðferðar. Baugi var tilkynnt þetta þann fimmtánda nóvember. Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, vill ekki tjá sig um efnisatriði í málinu að svo stöddu en segir að það hafi tekið nokkrum breytingum frá því að ríkislögreglustjóri sendi það til meðferðar hjá skattrannsóknarstjóra í lok síðasta árs. "Það var við því að búast að málinu yrði vísað aftur til ríkislögreglustjóra eftir að skattrannsóknarstjóri hafði farið yfir það, enda var það þaðan komið." Skattrannsóknarstjóri sendi skýrslu um málið til ríkisskattstjóra sem gaf Baugi frest til tíunda desember til að leggja fram sín sjónarmið. Niðurstöðu hans er að vænta fyrir áramót, að sögn Hreins. Í fréttum Sjónvarps í gær sagði að atriði sem tengjast sameiningu fyrirtækja undir merkjum Baugs árið 1998 vektu mesta athygli rannsakenda. Skúli Eggert Þórðarson, skattrannsóknarstjóri vildi ekki tjá sig um málið í gær og ekki náðist í Jón H.B. Snorrason, yfirmann efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×