Innlent

Feðgar dæmdir til refsingar

Tuttugu og tveggja ára maður var, í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag, dæmdur í tuttugu mánaða fangelsi fyrir innflutning á fimmtán kílóum af hassi í félagi við föður sinn og tvo jafnaldra sína. Efnin flutti maðurinn í þremur skipaferðum frá Danmörku. Jafnaldrar mannsins og félagar voru hvor um sig dæmdir í átta mánaða fangelsi fyrir sölu á hluta efnanna. Faðir hans fékk fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa tekið á móti einni sendingunni sem stíluð var á hans nafn. Hassið flutti maðurinn til landsins með því að fela það í dekkjum á felgum. Fyrst tvö kíló af hassi, síðan fimm kíló og síðast átta kíló. Höfuðpaurinn og jafnaldrar hans játuðu brot sín að mestum hluta. Faðir höfuðpaursins neitaði hins vegar að hafa haft nokkra vitneskju um innflutning fíkniefnanna. Þykir dómnum ótrúlega að hann hafi ekki vitað um innflutninginn þar sem hann bjó á sama stað og mennirnir þrír. Honum hljóti að hafa verið ljóst að flytja átti inn fíkniefni en ekki eingöngu hjólbarða. Höfuðpaurnum var gert að sæta upptöku á 2,8 milljónum króna vegna fíkniefnasölu. Eins var einn samverkamanna hans gert að sæta upptöku á 1,1 milljón króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×