Innlent

Hrinti konu út úr bíl á ferð

Rúmlega tvítugur maður hefur í Héraðsdómi Vestfjarða verið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás og hótanir gegn ungri konu. Hann hristi hana, sló ítrekað í öxl hennar og hrinti henni að lokum út úr bíl á ferð í hringtorgi á Ísafirði. Ökumaður bílsins, nítján ára maður, var sakfelldur fyrir að hafa keyrt bílinn þegar árásin átti sér stað. Hann stöðvaði bifreiðina ekki þrátt fyrir beiðni konunnar og athugaði ekki líðan konunnar eftir að hún féll út. Einnig er maðurinn sviptur ökuréttindum vegna uppsafnaðra punkta. Mennirnir voru báðir ásamt fjórum öðrum mönnum fundnir sekir um kaup og sölu á hassi. Allir þurftu mennirnir að greiða sektir í ríkissjóð frá fjörutíu og upp í 350 þúsund krónur. Verði sektirnar ekki greiddar innan fjögurra vikna kemur fangelsi þeirra í stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×