Innlent

Fékk skilorð fyrir að skalla mann

Rúmlega tvítugur maður var í Héraðsdómi Norðurlands eystra dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás. Honum var gert að greiða þeim sem hann réðst á tæplega 300 þúsund krónur í skaðabætur. Maðurinn skallaði annan mann í andlitið þannig að hann féll í götuna í miðbæ Akureyrar í janúar árið 2003. Við árásina nefbrotnaði þolandinn auk þess sem hann brotnaði á litla fingri hægri handar. Árásarmaðurinn játaði brot sitt við þingfestingu málsins en sagði það hafa verið sjálfsvörn. Dómnum þótti hins vegar ekkert í framburði vitna benda til þess að þolandinn hafi ráðist á eða ógnað árásarmanninum sem var fundinn sekur um verknaðinn. Hann á að baki nokkurn sakaferil og hefur einu sinni áður verið fundinn sekur um alvarlega líkamsárás sem varðar við 218. grein almennra hegningarlaga. Manninum var gert að greiða allan sakarkostnað, þar á meðal 120 þúsund krónur í málsvarnarlaun verjanda síns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×