Að tapa – og sigra samt 16. desember 2004 00:01 Margt af því, sem hefur orðið Íslendingum til mestrar blessunar, hefur borizt hingað til lands utan úr heimi. Þannig fengum við verzlunarfrelsi 1855 og fengum þá loksins að stunda frjáls viðskipti við önnur lönd. Þetta gerðist einkum fyrir frumkvæði dönsku nýlendustjórnarinnar sem og fyrir einarðan málflutning Jóns Sigurðssonar forseta. Íslendingar tóku frelsinu hikandi og fálmandi eins og Færeyingar og hirtu ekki um að létta í leiðinni ýmsum þrúgandi hömlum af innanlandsverzluninni og erlendri fjárfestingu. Viðskiptahöftin hér innan lands fyrir og eftir 1855 og lengi áfram birtust m.a. í því, að Sölvi Helgason var hýddur fyrir að fara vegabréfslaus yfir – hamingjan sanna! – sýslumörk. Framfarabylgjan, sem hefur riðið yfir Ísland undangengin tíu ár, er með líku lagi sending að utan og hefði trúlega farið fram hjá Íslandi, ef við hefðum ekki gerzt aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu 1994. Það mátti engu muna, að Íslendingar höfnuðu utan svæðisins, svo hörð var andstaðan gegn EES-samningnum hér heima. Hvorki núverandi forsætisráðherra né núverandi forseti Íslands studdu gerð samningsins á Alþingi. Einn atburð enn er vert að rifja upp í þessu viðfangi. Upphaf heimastjórnar 1904 var í reyndinni gjöf Dana til Íslendinga. Alþingi hafði að vísu heimtað heimastjórn um árabil, en þeim kröfum hafnaði danska stjórnin jafnharðan. Óvænt stjórnarskipti í Danmörku 1901 færðu Íslendingum heimastjórn þrem árum síðar, en Alþingi hafði þá samþykkt frumvarp um nýskipan Íslandsmálanna á þann veg, að fyrsti íslenzki ráðherrann hefði búsetu í Kaupmannahöfn, úr því að betra var ekki í boði. Árin fyrir aldamótin 1900 marka upphaf nútímans á Íslandi. Landið var að vakna af löngum svefni, eða rakna úr roti réttara sagt. Einn þeirra manna, sem áttu mestan þátt í þjóðarvakningunni á þessu mótunarskeiði, var Valtýr Guðmundsson – dr. Valtýr eins og hann var jafnan nefndur. Hann reif sjálfstæðisbaráttu Íslendinga upp úr þeim djúpu hjólförum, sem hún hafði lengi hjakkað í. Hann tefldi fram nýjum hugmyndum um það, hvernig Íslendingar gætu smám saman tekið eigin mál í sínar eigin hendur, og hann var jafnvígur á alla helztu málaflokka eins og Jón forseti hafði verið á undan honum og hafði jafnan á réttu að standa eins og Jón. Hann bjó í Kaupmannahöfn alla tíð og þurfti því líkt og Jón að heyja stjórnmálabaráttu sína við skrifborð frekar en í ræðustól: það vinnulag hentar fræðimönnum eins og þeim tveim. Reyndar var Valtýr bæði fræðimaður og framkvæmda og lagði gjörva hönd að báðum helztu framkvæmdum heimastjórnaráranna, lagningu símans til landsins og stofnun Íslandsbanka. Valtýr var raunsæismaður í fyrsta lagi og enginn draumóramaður. Rök hans fyrir breyttum áherzlum í sjálfstæðisbaráttunni höfðuðu til frjálslyndra menntamanna, en þau féllu í fyrstu í grýttan jarðveg víða, svo grýttan, að sennilega hefur enginn Íslendingur fyrr eða síðar mátt sitja undir ámóta rógi og hann. En Valtýr gafst ekki upp: sjö árum eftir að hann tók fyrst sæti á Alþingi tefldi hann málstað sínum til sigurs þar 1901 og þótti þá sjálfsagður fyrsti ráðherra Íslands. Það varð þó ekki, þar eð stjórnarskiptin í Danmörku 1901 riðluðu svo stjórnmálunum hér heima, að Valtýr varð undir – en sigraði samt. Íslenzk stjórnmál voru þá eins og nú persónustjórnmál í fyrsta lagi: foringjastjórnmál. Maðurinn, sem gerbreytti landslagi íslenzkra stjórnmála um aldamótin 1900 og meiri styr stóð þá um en nokkurn annan mann á landinu fyrr eða síðar nema e.t.v. Jónas Jónsson frá Hriflu, féll smám saman í gleymsku, þar eð honum voru aldrei falin formleg völd og fáir hirtu um að halda minningu hans til haga. En nú er komin út langþráð ævisaga Valtýs eftir Jón Þ. Þór sagnfræðing (Dr. Valtýr, Hólar, 2004). Þetta er engin upphafningarsaga, öðru nær. Höfundurinn segir kost og löst á manninum og málatilbúnaði hans, og mættu fleiri ævisagnaritarar hafa þann háttinn á. Jóni Þ. Þór tekst vel að leyna því þar til í lokasetningu eftirmála verksins, að hann telur Valtý Guðmundsson vera merkasta stjórnmálamann Íslands á 19. öld að Jóni Sigurðssyni einum undanskildum. Ég er sama sinnis. Íslendingar hafa eignazt færri ævisögur helztu stjórnmálamanna sinna en ætla mætti. Þjóðin hefði fyllri mynd af sögu sinni fyrir hugskotssjónum, ef fleiri vel samdar ævisögur brygðu viðbótarbirtu á stjórnmálasöguna. Væntanlegar ævisögur Hannesar Hafstein og Bjarna Jónssonar frá Vogi eftir Guðjón Friðriksson og Ólaf Hannibalsson virðast einnig líklegar til að svara þessari þörf. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Það er ekki eitt, það er allt Diljá Matthíasardóttir Skoðun Hvað segir Morgunblaðið nú um stöðu litlu ríkjanna í ESB? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óáreiðanlegar mælingar og misvísandi fréttir Sigurjón Arnórsson Skoðun Líknarslæving við lífslok er umdeild meðferð Ingrid Kuhlman Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Henta vísindin bara þegar þau styðja skoðanir okkar? Haukur Logi Jóhannsson Skoðun Tvær þjóðir í sama landi Einar Helgason Skoðun Unga fólkið okkar og samfélagsmiðlar Fjóla Einarsdóttir Skoðun Hlutverk markmiða er að umbreyta okkur Árni Sigurðsson Skoðun Skilyrt loforð Þorsteinn Sæmundsson Skoðun
Margt af því, sem hefur orðið Íslendingum til mestrar blessunar, hefur borizt hingað til lands utan úr heimi. Þannig fengum við verzlunarfrelsi 1855 og fengum þá loksins að stunda frjáls viðskipti við önnur lönd. Þetta gerðist einkum fyrir frumkvæði dönsku nýlendustjórnarinnar sem og fyrir einarðan málflutning Jóns Sigurðssonar forseta. Íslendingar tóku frelsinu hikandi og fálmandi eins og Færeyingar og hirtu ekki um að létta í leiðinni ýmsum þrúgandi hömlum af innanlandsverzluninni og erlendri fjárfestingu. Viðskiptahöftin hér innan lands fyrir og eftir 1855 og lengi áfram birtust m.a. í því, að Sölvi Helgason var hýddur fyrir að fara vegabréfslaus yfir – hamingjan sanna! – sýslumörk. Framfarabylgjan, sem hefur riðið yfir Ísland undangengin tíu ár, er með líku lagi sending að utan og hefði trúlega farið fram hjá Íslandi, ef við hefðum ekki gerzt aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu 1994. Það mátti engu muna, að Íslendingar höfnuðu utan svæðisins, svo hörð var andstaðan gegn EES-samningnum hér heima. Hvorki núverandi forsætisráðherra né núverandi forseti Íslands studdu gerð samningsins á Alþingi. Einn atburð enn er vert að rifja upp í þessu viðfangi. Upphaf heimastjórnar 1904 var í reyndinni gjöf Dana til Íslendinga. Alþingi hafði að vísu heimtað heimastjórn um árabil, en þeim kröfum hafnaði danska stjórnin jafnharðan. Óvænt stjórnarskipti í Danmörku 1901 færðu Íslendingum heimastjórn þrem árum síðar, en Alþingi hafði þá samþykkt frumvarp um nýskipan Íslandsmálanna á þann veg, að fyrsti íslenzki ráðherrann hefði búsetu í Kaupmannahöfn, úr því að betra var ekki í boði. Árin fyrir aldamótin 1900 marka upphaf nútímans á Íslandi. Landið var að vakna af löngum svefni, eða rakna úr roti réttara sagt. Einn þeirra manna, sem áttu mestan þátt í þjóðarvakningunni á þessu mótunarskeiði, var Valtýr Guðmundsson – dr. Valtýr eins og hann var jafnan nefndur. Hann reif sjálfstæðisbaráttu Íslendinga upp úr þeim djúpu hjólförum, sem hún hafði lengi hjakkað í. Hann tefldi fram nýjum hugmyndum um það, hvernig Íslendingar gætu smám saman tekið eigin mál í sínar eigin hendur, og hann var jafnvígur á alla helztu málaflokka eins og Jón forseti hafði verið á undan honum og hafði jafnan á réttu að standa eins og Jón. Hann bjó í Kaupmannahöfn alla tíð og þurfti því líkt og Jón að heyja stjórnmálabaráttu sína við skrifborð frekar en í ræðustól: það vinnulag hentar fræðimönnum eins og þeim tveim. Reyndar var Valtýr bæði fræðimaður og framkvæmda og lagði gjörva hönd að báðum helztu framkvæmdum heimastjórnaráranna, lagningu símans til landsins og stofnun Íslandsbanka. Valtýr var raunsæismaður í fyrsta lagi og enginn draumóramaður. Rök hans fyrir breyttum áherzlum í sjálfstæðisbaráttunni höfðuðu til frjálslyndra menntamanna, en þau féllu í fyrstu í grýttan jarðveg víða, svo grýttan, að sennilega hefur enginn Íslendingur fyrr eða síðar mátt sitja undir ámóta rógi og hann. En Valtýr gafst ekki upp: sjö árum eftir að hann tók fyrst sæti á Alþingi tefldi hann málstað sínum til sigurs þar 1901 og þótti þá sjálfsagður fyrsti ráðherra Íslands. Það varð þó ekki, þar eð stjórnarskiptin í Danmörku 1901 riðluðu svo stjórnmálunum hér heima, að Valtýr varð undir – en sigraði samt. Íslenzk stjórnmál voru þá eins og nú persónustjórnmál í fyrsta lagi: foringjastjórnmál. Maðurinn, sem gerbreytti landslagi íslenzkra stjórnmála um aldamótin 1900 og meiri styr stóð þá um en nokkurn annan mann á landinu fyrr eða síðar nema e.t.v. Jónas Jónsson frá Hriflu, féll smám saman í gleymsku, þar eð honum voru aldrei falin formleg völd og fáir hirtu um að halda minningu hans til haga. En nú er komin út langþráð ævisaga Valtýs eftir Jón Þ. Þór sagnfræðing (Dr. Valtýr, Hólar, 2004). Þetta er engin upphafningarsaga, öðru nær. Höfundurinn segir kost og löst á manninum og málatilbúnaði hans, og mættu fleiri ævisagnaritarar hafa þann háttinn á. Jóni Þ. Þór tekst vel að leyna því þar til í lokasetningu eftirmála verksins, að hann telur Valtý Guðmundsson vera merkasta stjórnmálamann Íslands á 19. öld að Jóni Sigurðssyni einum undanskildum. Ég er sama sinnis. Íslendingar hafa eignazt færri ævisögur helztu stjórnmálamanna sinna en ætla mætti. Þjóðin hefði fyllri mynd af sögu sinni fyrir hugskotssjónum, ef fleiri vel samdar ævisögur brygðu viðbótarbirtu á stjórnmálasöguna. Væntanlegar ævisögur Hannesar Hafstein og Bjarna Jónssonar frá Vogi eftir Guðjón Friðriksson og Ólaf Hannibalsson virðast einnig líklegar til að svara þessari þörf.