Innlent

Hámarkssekt er nú 300 þúsund

Hámarkssekt vegna umferðarlagabrota fer úr 100 þúsund krónum í 300 þúsund krónur samkvæmt nýsamþykktri breytingu á reglugerð um viðurlög vegna brota á umferðarlögum. Samkvæmt samgönguráðuneytinu er breytingin liður í því að fylgja eftir umferðaröryggisáætlun samgönguráðuneytisins og auka aðhald að ökumönnum á þjóðvegum. Í nýlegri skýrslu sem tekin var saman af Umferðarstofu kemur fram að í þremur af hverjum fjórum banaslysum á Íslandi á árunum 1998 til 2002 var aðalorsök talin vera hraðakstur, ölvunarakstur eða það að bílbelti var ekki notað. Allar þessar orsakir banaslysa tengjast brotum á umferðarreglum. Samgönguráðherra hefur boðað að umferðaröryggisáætlun verði fylgt fast eftir og hefur þegar ráðgert að leggja 400 milljónir til verksins á næsta ári. Höfuðmarkmið samgönguráðuneytisins er að fækka slysum á þjóðvegum landsins þannig að fjöldi alvarlegra slysa í umferð á hverja 100 þúsund íbúa verði sambærilegur við það sem lægst gerist í heiminum.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×