Erlent

Látlausar blóðsúthellingar í Írak

Blóðsúthellingarnar í Írak virðast látlausar. Fjöldi fólks týndi lífi í morgun þegar hryðjuverkamaður sprengdi sig í loft upp í miðri mannmergð í Bagdad.  Tilræðið var með sama hætti og svo oft áður: bíl hlöðnum sprengiefni var ekið að einu öryggishliðana að græna svæðinu þar sem ríkisstjórn Íraks, herstjórn Bandaríkjanna og erlend sendiráð eru. Í miðri þvögunni sprengdi ökumaðurinn sig og bílinn í loft upp með þeim afleiðingum að þrettán fórust og fimmtán særðust. Hryðjuverkasveitir Abus Musabs al-Zarqawis sendu síðdegis frá sér yfirlýsingu þar sem sagt var að hryðjuverkamaður á þeirra vegum hefði staðið fyrir árásinni. Í ljósi árásarinnar, rúmum mánuði fyrir fyrstu frjálsu kosningarnar í landinu, koma orð forseta landsins, Ghazi Yawar, ekki á óvart. Í viðtölum í dag segir hann ástandið í Írak nú jafnast á við Þýskaland eftir fyrri heimsstyrjöldina, jarðvegurinn fyrir öfgamenn sé jafnfrjór og hætta sé á að Hitler frá Bagdad fái þar góðan hljómgrunn. Hann gagnrýndi einnig Bandaríkjamenn og Breta fyrir að hafa leyst upp írakska herinn og sent alla hermenn heim eins og þeir væru ótýndir glæpamenn. Fyrir vikið hefði myndast tómarúm sem nýr her gæti ekki fyllt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×