Innlent

Ók á fjögur hreindýr

Ekið var á fjögur hreindýr á Kárahnjúkavegi á Fljótsdalsheiði um klukkan níu í gærmorgun. Þoka var á svæðinu og hált. Tvö hreindýr drápust í árekstrinum og hin tvö þurfti að aflífa vegna sára. Ökumaðurinn sagðist ekki hafa séð dýrin í myrkrinu. Hann slasaðist ekki en bíllinn skemmdist töluvert að framan en var ökufær. Hreindýrin fjögur voru í hópi um hundrað dýra en mikið mun vera af hreindýrum á þessu svæði. Að sögn lögreglu á Egilsstöðum hafa hreindýrin jafnan farið um svæðið óáreitt og því séu það mikil viðbrigði fyrir dýrin eftir að Kárahnjúkavegur var lagður. Mikil umferð er um veginn sem liggur upp að virkjanasvæðinu við Kárahnjúka. Slys sem þessi eru því ekki óalgeng á þessum slóðum. Hreindýraráð mun ákveða hvað gert verður við skrokkana en þeir verða væntanlega urðaðir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×