Innlent

Velti lögreglubíl með hjólaskóflu

Maður gjöreyðilagði lögreglubíl með hjólaskóflu og er grunaður um að hafa reynt að kveikja í íbúðarhúsi sínu í Saurbæjarhreppi í Dölum um klukkan tvö í gær. Sýslumaður, lögmaður og lögregla voru stödd á bænum vegna uppboðs sem halda átti á eigninni. Ekki varð manntjón vegna berserksgangs mannsins. Maðurinn brást hinn versti við uppboðsaðgerðunum og velti lögreglubílnum tvær til þrjár veltur með stórri hjólaskófu sem hann hafði til umráða. Maðurinn lokaði sig einnig inni í íbúðarhúsinu og er hann grunaður um að hafa kveikt eld inni. Slökkviliðið var kallað á staðinn og þurfti að slökkva í glæðum og reykræsta húsið. Samkvæmt heimildum blaðsins kveikti maðurinn eld á tveimur stöðum í húsinu, í svefnherbergi á efri hæð og á öðrum stað á neðri hæð hússins. Brunatjón varð ekki mikið í húsinu en talsverðar reykskemmdir urðu. Lögregla náði að yfirbuga manninn sem var fluttur til Reykjavíkur undir læknishendur. Lögreglan í Borgarnesi hefur lánað lögreglunni í Búðardal lögreglubíl þar til annar bíll fæst í stað þess sem skemmdist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×