Innlent

Upptökin rakin til sígarettuglóðar

Björn Mikaelsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, segir það ganga kraftaverki næst að ekki skyldu fleiri farast í húsbrunanum á Sauðárkróki í gærmorgun. Helgistund verður í Sauðárkrókskirkju í dag vegna slyssins en þar lést 21 árs gamall piltur sem var til heimilis í íbúðarhúsinu sem brann. Rannsókn á eldsupptökunum stendur yfir og beinist grunur manna að því að eldsupptök megi rekja til þess að sígarettuglóð hafi komist í sófa. Fjöldi ungmenna hafði verið í húsinu í samkvæmi sem stóð fram eftir nóttu. Þegar eldurinn kom upp voru fjögur ungmenni þar enn, þrír piltar og ein stúlka. Sá sem lést fannst í stofu á neðri hæð. Björn Mikaelsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, segir að slökkviliðsmenn og nágrannar hafi unnið þrekvirki við bjarga hinum út. Þannig hafi reykkafarar náð einum pilti út meðvitundarlausum og nágranna gripið stúlku eftir að hafa manað hana til að stökkva út um glugga af annarri hæð. „Það er með eindæmum að þetta skyldi hafa tekist. Það er aðdáunarvert að reykkafararnir skuli hafa getað farið inn í húsið og bjargað meðvitundarlausum piltinum út úr húsinu og komið lífi í hann,“ segir Björn. Pilturinn sem fluttur var til Reykjavíkur með sjúkraflugi er á batavegi. Að sögn Björns gengur það kraftaverki næst að ekki fór enn verr í þessu skelfilega slysi.    Björn segir sorg ríkja á Sauðárkróki. Í gær átti að kveikja á jólatréi í bænum en því var frestað til dagsins í dag. Athöfnin mun hefjast með helgistund í Sauðárkrókskirkju.  Hægt er að hlusta á viðtal við Björn úr hádegisfréttum Bylgjunnar með því að smella á hlekkinn hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×