Innlent

Eimskip greiddi launin

Eimskip greiddi tveggja mánaða laun skipverja Ocean Caroline sem lögðu niður störf í fyrrakvöld vegna vangoldinna launa. Skipið siglir undir norsku flaggi en skipverjarnir eru frá Póllandi og Litháen auk íslensks skipstjóra. Skipið er í eigu norsks fyrirtækis en dótturfyrirtæki Eimskips í Noregi, Coldstore and transport group, er með skipið á leigu. Skipverjarnir höfðu samband við Jónas Garðarsson, formann Sjómannafélags Reykjavíkur, í fyrrakvöld og báðu hann að hjálpa sér við að fá vangoldin laun greidd. Jónas hvatti mennina til að leggja niður störf sem þeir gerðu og fór hann til Norðfjarðar í gær þar sem skipið lá við höfn. Laun hásetanna eru 85 þúsund krónur á mánuði með næturvinnu og orlofi. Skipið kom hingað til lands til að flytja frosna síld fyrir SÍF til Litháen og Póllands. Launin sem Eimskip greiddi mönnunum munu síðan verða dregin frá leigukostnaði sem félagið þarf að greiða norskum eigendum skipsins. Jónas segir norska fyrirtækið fyrst hafa sent honum afrit af bankayfirliti sem sýni greiðslur til skipverjanna. Þeir sendu hins vegar ekki yfirlit sem sýndi að greiðslurnar höfðu verið dregnar til baka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×