Gagnvirkt sjónvarp Símans
Síminn hefur ákveðið að ganga til samstarfs við Thales Broadcast & Multimedia og IBM um tæknilausn til dreifingar á stafrænu gagnvirku sjónvarpi yfir ADSL-kerfið. Komið hefur fram að Síminn ætli að sníða fjarskiptanet sitt enn frekar að dreifingu stafræns gagnvirks sjónvarps, en nú dreifir Síminn stafrænu sjónvarpsmerki til um 35 þúsund heimila um ljósleiðarakerfi sitt (Breiðbandið). Ákveðið hefur verið að nýta einnig ADSL-kerfið til dreifingar sjónvarpsefnis, en það nær til um 92 prósenta heimila á landinu. Eva Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir að ákveðið hafi verið að ganga til samstarfs við Thales þar sem lausn fyrirtækisins hefði þegar sannað gildi sitt hjá öðrum símafyrirtækjum sem bjóði stafrænt gagnvirkt sjónvarp yfir ADSL-kerfi. Síminn gerir ráð fyrir að kynna gagnvirka sjónvarpsþjónustu sína í áföngum á næstu mánuðum. Hluti af nýja kerfinu verður svokölluð myndveita, eða Video on demand.