Innlent

Þak fauk og bátur sökk

Vitlaust veður var í Vestmannaeyjum í gær og hlaust af talsvert tjón. Rýma þurfti nokkra vinnustaði í bænum eftir að hluti þaks á einu af húsum Ísfélags Vestmannaeyja hófst á loft og skall af miklum þunga á jörðina. Engan sakaði en nokkrir bílar löskuðust og er einn talinn ónýtur. Ekki þótti ráðlegt að leyfa umferð um svæðið þar sem hætta var á frekara foki. Snælduvitlaust veður var í Eyjum lungann úr gærdeginum og fór vindurinn nokkuð yfir 40 metra á sekúndu í verstu kviðunum. Lögregla og björgunarsveit áttu í miklum önnum við að hemja fjúkandi hluti og fór mest fyrir þakplötunum eins og svo oft áður þegar vindur blæs af meira afli en vanalega. Eitt og annað smálegt barst með vindinum og klæðningar á húsum byrjuðu að losna en björgunarsveitarmenn brugðust skjótt við og forðuðu frekara tjóni. Þeim, frekar en öðrum, tókst þó ekki að kom í veg fyrir að skemmtibátur sykki í smábátahöfninni. Útköll voru á annan tuginn og tilvikin stór og smá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×