Innlent

Ofbeldismaður hótar ritstjóra DV

Ritstjóri DV hefur farið fram á að nálgunarbann verði sett á dæmdan ofbeldismann sem hefur haft í hótunum við hann og fjölskyldu hans að undanförnu. Maðurinn krefst þess að blaðið láti af umfjöllun um sig en ritstjórinn segist vera að vinna þjóðþrifaverk. DV hefur undanfarna daga fjallað ítarlega um feril manns sem mun hafa kýlt Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndaleikstjóra á bar fyrir viku. Lögreglan hefur nú til umfjöllunar kæru frá ritstjóranum, Mikaeli Torfasyni, en búist er við að dómari taki afstöðu til kröfu um nálgunarbann á hendur manninum í næstu viku. Mikael segir manninn hafa haft samband við sig, konu sína, starfsmenn á blaðinu og jafnvel ömmu og afa eins starfsmannsins og haft í beinum og óbeinum hótunum. Hann hafi jafnframt setið fyrir utan skrifstofur DV og heimili Mikaels. Mikael segir manninn margdæmdan ofbeldismann og þekktan handrukkara. En þótt mönnum sé ekki sama um hótanir hans verði þeir ekki hræddir frá umfjöllun. Áfram verði því fjallað um manninn í blaðinu á morgun.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×