Innlent

Alfreð var viss um niðurstöðuna

Búið var að vara borgaryfirvöld við því að með því að synja Egilshöll um vínveitingarleyfi væri verið að brjóta gegn stjórnsýslulögum. Málið var þverpólitískt í borgarstjórn og klofnaði R-listinn meðal annars í afstöðu sinni. Sjö voru á móti því að veita leyfið og sex með. Í fyrradag úrskurðaði úrskurðarnefnd um áfengismál að með því að synja Sportbitanum, sem sér um veitingasölu í Egilshöll í Grafarvogi, um leyfi til að veita bjór og léttvín hefðu borgaryfirvöld brotið gegn jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Alfreð Þorsteinsson, formaður borgarráðs, var einn af þeim sem vildi veita leyfið. "Ég varaði mjög við því að leyfinu yrði synjað," segir Alfreð. "Nú hefur úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu borgin braut gegn jafnræðisreglu og meðalhófsreglu og það er náttúrlega slæmt." Alfreð segir að þeir borgarfulltrúar sem hafi synjað leyfinu hafi vafalaust gert það í góðri trú. "Mönnum mátti samt alveg vera það ljóst frá upphafi að vegna ákvæða í stjórnsýslulögum um jafnræði var borginni ekki stætt á að hafna umsókninni og að það stæðist ekki góða stjórnsýsluhætti."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×