Innlent

Vín veitt í Egilshöllinni

Borgaryfirvöldum hefur verið gert að veita Sportbitanum, sem sér um veitingasölu í Egilshöll í Grafarvogi, vínveitingaleyfi. Fyrr á þessu ári synjaði borgarstjórn Reykjavíkur Sportbitanum um vínveitingaleyfi. Töldu borgarfulltrúar meðal annars ótækt að veita leyfið þar sem áfengið yrði veitt á stað sem tengdist íþróttaviðburðum sem og unglinga- og barnastarfi. Forsvarsmenn Sportbitans kærðu niðurstöðu borgarinnar til úrskurðarnefndar um áfengismál. Í niðurstöðu nefndarinnar er vísað til jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Í niðurstöðunum segir að mörg dæmi séu um það að Reykjavíkurborg hafi veitt áfengisveitingaleyfi í húsnæði þar sem fram fer íþróttastarfsemi og þar sem börn og unglingar venja komur sínar, svo sem í golfskálum, í keilusölum, félagsheimili Fáks og á veitingastaðnum Laugakaffi í Laugum í Laugardal. Með vísan til þessa telur úrskurðarnefndin að Reykjavíkurborg brjóti gegn þessum reglum stjórnsýsluréttarins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×