Innlent

Ákærður fyrir sex líkamsárásir

Hálfþrítugur þekktur ofbeldismaður í Hafnarfirði tók sér frest til að tjá sig um sex líkamsárásir og vopnalagabrot sem hann er ákærður fyrir þegar mál hans var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Ákæra á hendur manninum, fyrir að hafa slegið mann nokkrum sinnum í höfuðið með öxi á veitingastaðnum A. Hansen í Hafnarfirði síðasta dag ágústmánaðar, er í undirbúningi. Búist er við að geðrannsókn á manninum verði lokið um miðjan næsta mánuð. Maðurinn er ákærður fyrir sex líkamsárásir og þar af eina sérstaklega hættulega þegar hann sló mann með bjórflösku í andlitið þannig að flaskan brotnaði. Strax á eftir lét hann þrjú hnefahögg fylgja í andlit mannsins. Árásin var framin í janúar fyrir framan veitingastaðinn A. Hansen. Hann er einnig sakaður um að hafa sama kvöld barið þrjá menn með hnefanum í andlitið. Þá er hann ákærður fyrir að slá mann nokkur högg í andlitið í október í fyrra og hafa rifbrotið annan mann sem hann barði í kviðinn í janúar. Einnig er hann ákærður fyrir vopnalagabrot en við húsleit heima hjá manninum fannst haglabyssa undir baðkerinu. Hann hefur ekki skotvopnaleyfi. Fyrir ári var maðurinn dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að kasta grjóti í andlit manns og fyrir vörslu fíkniefna. Fyrir það hlaut hann þriggja mánaða fangelsisdóm en fullnustu refsingarinnar var frestað í þrjú ár héldi hann skilorð. Ljóst er að maðurinn er margbúinn að brjóta skilorð. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. október vegna axarárásarinnar en hann gekk rakleiðis að fórnarlambinu og sló það nokkrum sinnum í höfuðið. Öxin slóst auk þess í annan mann sem stóð fyrir aftan árásarmanninn þegar hann reiddi til höggs. Hann flúði staðinn eftir árásina en var handtekinn skömmu síðar heima hjá sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×