Innlent

120 lögmenn styðja Jón Steinar

Listi með 120 nöfnum þeirra lögmanna sem vilja að Geir H. Haarde virði umsögn Hæstaréttar um val á dómara við réttinn að vettugi og taki sjálfstæða ákvörðun um ráðninguna var afhentur ráðherranum í gær. Geir ræður í dómarastöðuna í stað Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra sem lýsti sig vanhæfan til verksins. Lögmennirnir lýsa þannig óbeint yfir stuðningi við Jón Steinar Gunnlaugsson, en í áliti Hæstaréttar er Jón ekki á meðal þeirra tveggja sem rétturinn telur hæfasta. Lögmennirnir telja innbyrðis ósamkvæmni einkenna þá umsögn réttarins, Jón Steinar hafi víðtæka og umfangsmikla lögmannsreynslu sem ekki sé hægt að líta fram hjá, og ráðherra beri því að taka sjálfstæða ákvörðun í þessu máli. Að sögn Sveins Andra Sveinssonar lögmanns var markmiðið að safna undirskriftum um 50 til 100 lögmanna. Árangurinn sé því framar vonum. Hann vísir þeirri gagnrýni á bug að með listanum sé Jón Steinar sjálfkrafa orðinn vanhæfur sem dómari, þar sem lögmenn skiptist nú í þá sem styðja hann og þá sem gera það ekki. "Þessi gagnrýni er eins og hvert annað kjaftæði," segir Sveinn. Hann segir að betur færi á því, að þeim sem augljóslega sé í nöp við Jón Steinar segi það beint út, í stað þess að "búa til einhverja nýja vanhæfisreglu gegn honum". Geir H. Haarde ber að skipa í dómarasætið fyrir 1.október.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×