Erlent

Óskar eftir fundi um innrásina

Steingrímur J. Sigfússon, fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í utanríkismálanefnd, hefur sent Sólveigu Pétursdóttur, formanni nefndarinnar, bréf þar sem óskað er eftir fundi í nefndinni við fyrsta hentugleika til að ræða stuðning Íslands við innrásina í Írak og aðdraganda hennar. Í bréfinu, sem sent var fjölmiðlum í dag, segir formaður Vinstri - grænna meðal annars: „Óska ég eftir því að meðal fundargagna verði helstu rannsóknaskýrslur sem komið hafa út austan hafs og vestan þar sem rakinn er aðdragandi ákvarðana um innrásina í Írak. Æskilegt væri að gerðir væru úrdrættir eða stuttar samantektir úr þessum helstu skýrslum til að auðvelda nefndarmönnum að setja sig inn í þau mál. Sérstaklega er hér átt við Hutton-skýrsluna svonefndu frá Bretlandi og skýrslu bandarískra stjórnvalda og bandaríska þingsins. Einnig væri æskilegt að helstu gögn frá Ástralíu, Danmörku og víðar að, þar sem aðstæður eru sambærilegar að einhverju leyti og á Íslandi (ríki í „hópi hinna staðföstu"), væru reidd fram, svo og annað sem tengist umræðum um lögmæti ákvarðana um innrásina, sbr. nýleg ummæli Kofi Annans, aðalritara Sþ.“ Steingrímur óskar jafnframt eftir að á dagskrá fundarins verði umræður um hvernig utanríkismálanefnd og/eða Alþingi geti í framhaldinu unnið að því að upplýsa þessi mál og allan aðdraganda þess að Íslendingar lýstu stuðningi við innrásina í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×