Margt býr í hæðinni 29. júlí 2004 00:01 Frönsku byltingarmennirnir, sem tóku Bastilluna í París 1789 og breyttu heiminum, voru að jafnaði einn og fimmtíu á hæð og vógu um 45 kg hver. Þeir voru eins og fermingarstelpur á okkar dögum. Eftir það tók að togna úr Frökkum. Evrópumenn voru þó 20 cm lægri í loftinu fyrir 150 árum en þeir eru nú. Íslenzkir karlar hafa hækkað um 10 cm að jafnaði síðan um aldamótin 1800, konur um 13 cm. Og hvað með það? – spyr nú lesandinn. Allt þetta skiptir máli, því að líkamshæð segir mikla sögu um hagsæld þjóðar aftur í tímann – um mataræði, mengun, heilsufar, húsakost, streitu og þannig áfram. Þyngdin segir minna: hún ræðst af fæðuneyzlu umfram orkubrennslu á nýliðinni tíð. Staðtölur um líkamshæð bregða nýrri birtu á vöxt og viðgang þjóða og samanburð lífskjara milli landa og fylla ýmsar eyður, sem þröngir hagrænir lífskjarakvarðar svo sem þjóðartekjur á mann eða vinnustund ná ekki að fylla. Hollendingar og Íslendingar eru einum cm hærri að jafnaði en Danir, Norðmenn og Svíar, og þeir eru aftur þrem cm hærri í loftinu en Bretar og Bandaríkjamenn. Fyrir 250 árum voru Bandaríkjamenn þó að jafnaði sjö cm hærri en Bretar. Hvernig víkur þessu við? Lausn gátunnar virðist vera þríþætt, eða svo segja þeir, sem fást við að rekja líkamsmál saman við lífskjaramælingar. Norðurlönd eru í fyrsta lagi rík: þau hafa lyft sér upp úr örbirgð til allsnægta á einni öld, enn hraðar en önnur Evrópulönd yfirleitt. Norðurlandaþjóðirnar eru í öðru lagi heilsuhraustar, og svo er fyrir að þakka m.a. góðri heilbrigðisþjónustu, sem allir eiga greiðan aðgang að. Og lífsgæðunum er í þriðja lagi tiltölulega jafnt skipt á milli fólks á Norðurlöndum í skjóli almannatrygginga, svo að enginn þarf að bera mjög skarðan hlut frá borði. Það er þriðja og síðasta atriðið, sem einkum greinir Norðurlöndin frá Bandaríkjunum. Ríkir Bandaríkjamenn ná að sönnu svipaðri líkamshæð og Norðurlandamenn, en ójöfnuðurinn í skiptingu auðs og tekna í Bandaríkjunum er slíkur, að tugir milljóna Bandaríkjamanna – þeir, sem ala börnin sín upp í fátækt, eiga ekki aðgang að heilbrigðistryggingum og læknishjálp og þannig áfram – ná ekki sömu líkamshæð og hinir. Þarna virðist hundurinn liggja grafinn. Samhengið milli hæðar og efnahags leynir sér ekki í tiltækum staðtölum. Vestur-Þjóðverjar eru t.a.m. einum cm hærri en Austur-Þjóðverjar í öllum aldursflokkum. Hvítir Bandaríkjamenn eru að jafnaði fimm cm hærri en svartir á öllum aldri. Hátekjumenn þar vestra eru yfirleitt einum til tveim cm hærri en lágtekjumenn, óháð aldri. Háskólagengnir Bandaríkjamenn eru að jafnaði þrem cm hærri en þeir, sem aðeins hafa lokið grunnskólaprófi, einnig óháð aldri, og þannig áfram. Tölur frá öðrum löndum og öðrum tímum segja svipaða sögu. Það er einnig fróðlegt að skoða, hvernig mannhæðartölurnar hafa breytzt með tímanum. Bandaríkjamenn á sjötugsaldri eru tveim til þrem cm hærri en Þjóðverjar á sama aldri. Það er trúlega til marks um efnahagslega yfirburði Bandaríkjanna umfram Þýzkaland á þeim tíma, þegar þessi kynslóð var að vaxa úr grasi. Bandaríkjamenn á þrítugsaldri eru á hinn bóginn tveim til þrem cm lægri en Þjóðverjar á sama reki. Bandaríkjamenn hafa m.ö.o. verið að dragast aftur úr Evrópu, einkum Norðurlöndum, enda eru Norðurlandamenn ívið hærri í loftinu en Þjóðverjar. Aðrar vísbendingar leggjast á sömu sveif. Rösklega fimmti hver kani á við offituvanda að stríða, og offita er oft fátæktareinkenni. Bandaríkjamenn lifa skemur en margar Evrópuþjóðir. Og hér er þá hugsanlega kominn vísir að lausn á gátu, sem hagfræðingar og aðrir hafa glímt við mörg undangengin ár. Gátan er þessi: hvers vegna virðist mikill ójöfnuður í skiptingu auðs og tekna í Bandaríkjunum – mun meiri ójöfnuður en tíðkast í Evrópu að Bretlandi einu undanskildu – ekki hafa bitnað á hagsæld Bandaríkjanna? Þjóðartekjur á hverja vinnustund í Bandaríkjunum eru svipaðar og í mörgum Evrópulöndum, svo að hagsældin er á þennan kvarða svipuð á báðum stöðum. En þjóðartekjur á mann eða vinnustund segja samt ekki alla söguna. Ójöfnuðurinn fyrir vestan virðist m.ö.o. ekki hafa bitnað á meðaltekjum manna þar, en hann virðist á hinn bóginn hafa bitnað svo á fátæklingum, að þeir hafa ekki náð sömu líkamshæð og aðrir og draga því niður meðalhæð bandarísku þjóðarinnar. Og hér er þá einnig komin hugsanleg skýring á því, hvers vegna það byrjaði að togna úr Frökkum eftir byltinguna 1789. Afkomendur byltingarmannanna náðu með tímanum svipaðri hæð og afkomendur aðalsins. Frelsi, jafnrétti og bræðralag glæða og bæta vöxtinn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Blekking Valkyrjanna Högni Elfar Gylfason Skoðun Ég vil fá boð í þessa veislu! Silja Björk Björnsdóttir Skoðun Er skilorðsbundin refsing hér við hæfi? Hvaða skilaboð sendir þessi dómur? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Með utanríkisstefnu í molum – stefnir Ísland í stríð við Íran? Ingólfur Shahin Skoðun Tölum endilega um staðreyndir Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Harmleikurinn í Úkraínu: Svör við nokkrum spurningum Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Halldór 04.01.2025 Halldór Mögnum markþjálfun til framtíðar Lella Erludóttir Skoðun Forvitni er lykillinn að framtíðinni Árni Sigurðsson Skoðun
Frönsku byltingarmennirnir, sem tóku Bastilluna í París 1789 og breyttu heiminum, voru að jafnaði einn og fimmtíu á hæð og vógu um 45 kg hver. Þeir voru eins og fermingarstelpur á okkar dögum. Eftir það tók að togna úr Frökkum. Evrópumenn voru þó 20 cm lægri í loftinu fyrir 150 árum en þeir eru nú. Íslenzkir karlar hafa hækkað um 10 cm að jafnaði síðan um aldamótin 1800, konur um 13 cm. Og hvað með það? – spyr nú lesandinn. Allt þetta skiptir máli, því að líkamshæð segir mikla sögu um hagsæld þjóðar aftur í tímann – um mataræði, mengun, heilsufar, húsakost, streitu og þannig áfram. Þyngdin segir minna: hún ræðst af fæðuneyzlu umfram orkubrennslu á nýliðinni tíð. Staðtölur um líkamshæð bregða nýrri birtu á vöxt og viðgang þjóða og samanburð lífskjara milli landa og fylla ýmsar eyður, sem þröngir hagrænir lífskjarakvarðar svo sem þjóðartekjur á mann eða vinnustund ná ekki að fylla. Hollendingar og Íslendingar eru einum cm hærri að jafnaði en Danir, Norðmenn og Svíar, og þeir eru aftur þrem cm hærri í loftinu en Bretar og Bandaríkjamenn. Fyrir 250 árum voru Bandaríkjamenn þó að jafnaði sjö cm hærri en Bretar. Hvernig víkur þessu við? Lausn gátunnar virðist vera þríþætt, eða svo segja þeir, sem fást við að rekja líkamsmál saman við lífskjaramælingar. Norðurlönd eru í fyrsta lagi rík: þau hafa lyft sér upp úr örbirgð til allsnægta á einni öld, enn hraðar en önnur Evrópulönd yfirleitt. Norðurlandaþjóðirnar eru í öðru lagi heilsuhraustar, og svo er fyrir að þakka m.a. góðri heilbrigðisþjónustu, sem allir eiga greiðan aðgang að. Og lífsgæðunum er í þriðja lagi tiltölulega jafnt skipt á milli fólks á Norðurlöndum í skjóli almannatrygginga, svo að enginn þarf að bera mjög skarðan hlut frá borði. Það er þriðja og síðasta atriðið, sem einkum greinir Norðurlöndin frá Bandaríkjunum. Ríkir Bandaríkjamenn ná að sönnu svipaðri líkamshæð og Norðurlandamenn, en ójöfnuðurinn í skiptingu auðs og tekna í Bandaríkjunum er slíkur, að tugir milljóna Bandaríkjamanna – þeir, sem ala börnin sín upp í fátækt, eiga ekki aðgang að heilbrigðistryggingum og læknishjálp og þannig áfram – ná ekki sömu líkamshæð og hinir. Þarna virðist hundurinn liggja grafinn. Samhengið milli hæðar og efnahags leynir sér ekki í tiltækum staðtölum. Vestur-Þjóðverjar eru t.a.m. einum cm hærri en Austur-Þjóðverjar í öllum aldursflokkum. Hvítir Bandaríkjamenn eru að jafnaði fimm cm hærri en svartir á öllum aldri. Hátekjumenn þar vestra eru yfirleitt einum til tveim cm hærri en lágtekjumenn, óháð aldri. Háskólagengnir Bandaríkjamenn eru að jafnaði þrem cm hærri en þeir, sem aðeins hafa lokið grunnskólaprófi, einnig óháð aldri, og þannig áfram. Tölur frá öðrum löndum og öðrum tímum segja svipaða sögu. Það er einnig fróðlegt að skoða, hvernig mannhæðartölurnar hafa breytzt með tímanum. Bandaríkjamenn á sjötugsaldri eru tveim til þrem cm hærri en Þjóðverjar á sama aldri. Það er trúlega til marks um efnahagslega yfirburði Bandaríkjanna umfram Þýzkaland á þeim tíma, þegar þessi kynslóð var að vaxa úr grasi. Bandaríkjamenn á þrítugsaldri eru á hinn bóginn tveim til þrem cm lægri en Þjóðverjar á sama reki. Bandaríkjamenn hafa m.ö.o. verið að dragast aftur úr Evrópu, einkum Norðurlöndum, enda eru Norðurlandamenn ívið hærri í loftinu en Þjóðverjar. Aðrar vísbendingar leggjast á sömu sveif. Rösklega fimmti hver kani á við offituvanda að stríða, og offita er oft fátæktareinkenni. Bandaríkjamenn lifa skemur en margar Evrópuþjóðir. Og hér er þá hugsanlega kominn vísir að lausn á gátu, sem hagfræðingar og aðrir hafa glímt við mörg undangengin ár. Gátan er þessi: hvers vegna virðist mikill ójöfnuður í skiptingu auðs og tekna í Bandaríkjunum – mun meiri ójöfnuður en tíðkast í Evrópu að Bretlandi einu undanskildu – ekki hafa bitnað á hagsæld Bandaríkjanna? Þjóðartekjur á hverja vinnustund í Bandaríkjunum eru svipaðar og í mörgum Evrópulöndum, svo að hagsældin er á þennan kvarða svipuð á báðum stöðum. En þjóðartekjur á mann eða vinnustund segja samt ekki alla söguna. Ójöfnuðurinn fyrir vestan virðist m.ö.o. ekki hafa bitnað á meðaltekjum manna þar, en hann virðist á hinn bóginn hafa bitnað svo á fátæklingum, að þeir hafa ekki náð sömu líkamshæð og aðrir og draga því niður meðalhæð bandarísku þjóðarinnar. Og hér er þá einnig komin hugsanleg skýring á því, hvers vegna það byrjaði að togna úr Frökkum eftir byltinguna 1789. Afkomendur byltingarmannanna náðu með tímanum svipaðri hæð og afkomendur aðalsins. Frelsi, jafnrétti og bræðralag glæða og bæta vöxtinn.
Er skilorðsbundin refsing hér við hæfi? Hvaða skilaboð sendir þessi dómur? Ole Anton Bieltvedt Skoðun
Er skilorðsbundin refsing hér við hæfi? Hvaða skilaboð sendir þessi dómur? Ole Anton Bieltvedt Skoðun