Menning

Feðgar með bíladellu

Hjá bílaumboðinu B&L er að finna þrjá meðlimi sömu fjölskyldu - alla með rosalega bíladellu. Haukur Sveinsson er 46 ára og synir hans tveir eru Heiðar Hauksson, 24 ára, og Hafþór Hauksson 18. Haukur og Heiðar eru sölumenn notaðra bíla hjá B&L og sitja hlið við hlið en Hafþór vinnur í standsetningunni þar sem bílar eru standsettir fyrir sölu. Pabbinn, Haukur, er búinn að vera í bílum síðan hann man eftir sér og búinn að vinna hjá B&L í samtals 14 ár. Starfsaldur drengjanna er hins vegar ekki svo hár, Heiðar er búinn að vinna hjá B&L í um sjö mánuði og Hafþór í fjóra. "Samstarfið hefur nú sína kosti og galla vissulega. Karlinn er samt hress. Ég sit reyndar við hliðina á honum þannig að ég get ekki skotið hverju sem er á stelpurnar sem koma inn. En þetta eru nú engir alvarlegir örðugleikar og samstarfið gengur annars mjög vel," segir Heiðar en hann er alls ekki nýr í bílabransanum. "Ég hef verið á tveim öðrum bílasölum í Reykjavík og átti síðan bónstöð sem var með samning við B&L. Þegar ég seldi bónstöðina þá var mér boðin vinna hjá B&L þannig að ég tók hana. Ég býst við að vinna hér á bílasölunni eitthvað áfram og síðan er framhaldið óákveðið. Ætli ég reyni ekki að drífa mig í skóla." "Við erum frá Akureyri og ég var lengi með B&L umboðið þar og rak bílasölu. Síðan fluttum við til Reykjavíkur og þá hóf ég störf hér hjá B&L í Reykjavík. Bíladellan er í blóðinu í þessari fjölskyldu og áhuginn alveg út í gegn," segir Haukur en segist þó ekkert ráðskast með synina. "Hafþór er náttúrulega í öðru húsi í standsetningunni þannig að ég fylgist ekki eins vel með honum. Síðan segi ég Heiðari til þar sem ég er búinn að vera í þessum bransa ansi lengi og veit talsvert. En ég segi honum samt ekkert meira til en einhverjum öðrum sem byrjar nýr." Bæði pabbinn og strákarnir eru búnir að prófa ansi mikið sem tengist bílum og vélum. "Pabbi er búinn að vera í öllu eins og sandspyrnu, snjósleðum og kvartmílu og ég og Heiðar erum báðir í götuspyrnu og kvartmílu. Við viljum prófa allt sem til er, allavega allt sem er með vél. Pabbi er í stjórn kvartmíluklúbbsins og á föstudögum eru kvartmíluæfingar og á laugardögum eru keppnir," segir Hafþór sem hefur ekki minni áhuga á hvers konar vélum og bílum en hinir. "Pabbi kann allt og þegar við kaupum okkur bíl þá tökum við allt í honum frá A til Ö alveg sjálfir. Það er sko allt græjað og við töpum ekkert á því þegar við seljum bílinn aftur, frekar græðum," segir Heiðar. "Við eigum allir sportbíla. Hafþór á fjarstýrðan bensínbíl og Heiðar var að flytja inn Mustang 2000 árgerð sem er ægilegur kaggi. Þetta er bara eins og hvert annað sport, t.d. laxveiði eða golf. Golfarinn vill alltaf nýjasta golfsettið og veiðimaðurinn nýjustu veiðistöngina. Við viljum alltaf flottustu bílana. Allt kostar þetta peninga en það er aukaatriði," segir Haukur að lokum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×