Halldór hlusti á flokksmenn sína
Alfreð Þorsteinsson forystumaður Framsóknarflokksins í borgarmálunum segir niðurstöður könnunar Fréttablaðsins stóralvarleg tíðindi en þar kemur fram að Framsóknarflokkurinn er minnstur íslenskra stjórnmálaflokka þar sem 7,5 prósent þeirra sem afstöðu tóku styðja flokkinn. Ekki náðist í Halldór Ásgrímsson formann flokksins í morgun en Alfreð Þorsteinsson segir að forysta flokksins hafi ekki gengið í takt við almenna flokksmenn. Hann hafi varað formanninn við en hann hafi ekki hlustað. Hann segir að ef þingmenn flokksins séu ósáttir við stefnu flokksins í fjölmiðlamálinu eigi þeir að fylgja sannfæringu sinni, ekki formanninum. Alfreð segir þessi tíðindi vera stóralvarleg og að í henni hljóti að felast í skýr skilaboð frá Framsóknarmönnum til flokksforystunnar, sem virðist ekki hafa gengið í takt við hinn almenna flokksmann. Hann telur að Framsóknarflokkurinn geti ekki elt Sjálfstæðisflokkinn í öllum þeim öfgum sem forysta hans hafi sýnt að undanförnu. Hann vildi benda á að Framsóknarflokkurinn væri ekki hægri flokkur heldur skilgreindi sig sem miðjuflokk sem legði áherslu á málamiðlanir. Hann hafi sem slíkur haft nokkuð sterka stöðu í íslenskum stjórnmálum. Hins vegar geti bara farið illa ef hann fylgi Sjálfstæðisflokknum svona grimmt eins og hann hafi gert í fjölmiðlamálinu. Alfreð segir að formaður flokksins þurfi að hlusta betur á flokksmenn sína. Hann segir engum vafa undirorpið að flokksmenn séu óánægðir með flokksforystuna og sætti sig ekki við þá stefnu sem flokkurinn hafi fylgt. Ennfremur segir Alfreð að þingmenn ættu að fylgja samvisku sinni og gera fomanni flokksins það ljóst að þeir treysti ekki stefnu hans. Hann hafi sjálfur varað formann við í byrjun árs en það hefði ekki verið hlustað á rök hans.