Óvíst um þinghald í dag
Óvíst er um þinghald í dag og á morgun. Samkvæmt þingsköpum þarf að leita afbrigða svo hægt sé að ræða nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar um fjölmiðla í dag. Allt stefnir í að þingfundur klukkan þrjú verði eingöngu útbýtingarfundur og umræða um frumvarpið verði ekki fyrr en á miðvikudag. Samkvæmt þingsköpum þarf að dreifa frumvarpinu og það að liggja inni í tvær nætur til að hægt sé að taka það á dagskrá. Undantekningin er ef samþykkt er sérstakt afbrigði með auknum meirihluta sem stjórnarandstaðan þarf að samþykkja líka. Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna segir að slíkt afbrigði verði að líkindum ekki samþykkt verði farið fram á það. Hann segir stefna í nýja styrjöld ef ríkisstjórnin ætli að reyna þessar brellur. Hann sagði það verða fróðlegt að heyra hvernig stjórnarmenn útskýra þá óvæntu lendingu sem komin er í málið. Hann spáir því að málið verði enn stærra en áður enda hafi verið brotið á rétti þjóðarinnar til að kjósa um málið.