Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - ÍR 88-64 | Sjöundi sigur Njarðvíkinga í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristinn Pálsson skoraði 15 stig.
Kristinn Pálsson skoraði 15 stig. mynd/jón björn

Njarðvík vann sinn sjöunda leik í röð þegar liðið lagði ÍR að velli, 88-64, í 12. umferð Domino's deildar karla í kvöld.

Með sigrinum jafnaði Njarðvík Tindastól og Keflavík að stigum í 2. sæti deildarinnar. Þetta var hins vegar annað tap ÍR í röð.

Liðin frumsýndu þrjá nýja leikmenn í leiknum í kvöld. Aurimas Majauskas og Tevin Falzon léku sinn fyrsta leik fyrir Njarðvík og Roberto Kovac þreytti frumraun sína með ÍR.

Njarðvík byrjaði leikinn betur og komst mest ellefu stigum yfir í 1. leikhluta. Samt leiddu heimamenn bara með þremur stigum að honum loknum, 20-17.

ÍR getur þakkað Evan Singletary fyrir að munurinn var svo lítill en hann skoraði 15 af 17 stigum gestanna í 1. leikhluta.

Njarðvík hitti illa framan af en rústaði ÍR undir körfunni. Sóknarleikur Njarðvíkinga var mun skipulagðari en þeir voru með 25 stoðsendingar í leiknum gegn aðeins níu hjá ÍR-ingum.

ÍR hélt í við Njarðvík framan af 2. leikhluta en Njarðvíkingar nýttu sér tækifærið þegar Singletary var hvíldur og juku muninn.

Njarðvík var ellefu stigum yfir í hálfleik, 44-33. Þeirri forystu ógnaði ÍR ekki í seinni hálfleik.

Njarðvíkingar juku muninn jafnt og þétt og sigur þeirra var aldrei í hættu. Þeir voru 15 stigum yfir eftir 3. leikhluta, 64-49, og unnu að lokum með 24 stigum, 88-64.

Af hverju vann Njarðvík?

Þeir höfðu yfirburði undir körfunni og réðu vel við sóknarleik ÍR-inga, fyrir utan Singletary framan af leik.

Heimamenn unnu frákastabaráttuna, 49-28, og skoruðu 42 stig inni í teig gegn 26 stigum gestanna.

Hverjir stóðu upp úr?

Chaz Williams stýrði leik heimamanna af myndarbrag og sprengdi ÍR-vörnina í tætlur þegar honum sýndist. Hann var með 20 stig, sjö fráköst og ellefu stoðsendingar. Njarðvík hefur ekki enn tapað deildarleik síðan hann kom til liðsins.

Majauskas lék vel í sínum fyrsta leik fyrir Njarðvík. Hann skoraði 18 stig og sýndi góð tilþrif undir körfunni.

Matasovic var einnig öflugur og skoraði 18 stig og tók sjö fráköst. Kristinn Pálsson lék líka vel og skilaði 15 stigum og átta fráköstum.

Singletary var öflugur í 1. leikhluta og skoraði þá 15 af 26 stigum sínum. Hann náði ekki sömu hæðum eftir það.

Hvað gekk illa?

Singletary bar þyngstu byrðarnar í sóknarleik ÍR en enginn samherja hans náði neinu flugi. Kovac hafði hægt um sig, Georgi Boyanov sýndi nokkur góð tilþrif en varð fljótt pirraður og Collin Pryor og Danero Thomas gerðu lítið.

Hvað gerist næst?

Á fimmtudaginn fær ÍR topplið Stjörnunnar í heimsókn. Á föstudaginn sækir Njarðvík Tindastól heim og getur þá unnið áttunda deildarleikinn í röð.

Einar Árni og strákarnir hans eru á góðri siglingu.vísir/bára

Einar Árni: Margt jákvætt í okkar leik

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, var að vonum ánægður eftir sjöunda sigurinn í röð.

„Ég er virkilega ánægður með frammistöðuna í dag. Það er alltaf númer eitt að vinna en það var margt jákvætt í okkar leik,“ sagði Einar.

Hans menn voru öflugir undir körfunni og spiluðu flotta vörn í leiknum.

„Varnarleikurinn var góður og við unnum frákastabaráttuna mjög sannfærandi. Boltinn gekk svo vel í sókninni. Í fyrri hálfleik skoruðu bara fjórir menn en mér fannst það ekki gefa rétta mynd. Menn fengu góð skot sem fóru ekki niður. Það small svo í seinni hálfleik,“ sagði Einar.

Aurimas Majauskas og Tevin Falzon léku sinn fyrsta leik fyrir Njarðvík í kvöld. Sá fyrrnefndi skoraði 18 stig en sá síðarnefndi fjögur.

„Auri kom til landsins 27. desember og er kominn lengra. Tevin kom á föstudagsmorguninn og á lengra í land. Hann hefur aðeins náð tveimur æfingum með okkur. Krafturinn og viljinn var til staðar hjá báðum og þeir eru báðir öflugir í fráköstunum,“ sagði Einar að endingu.

Borche hefur áhyggjur eftir tvö töp í röð.vísir/bára

Borche: Vantaði meiri baráttu

„Þetta jólafrí fór ekki vel í okkur. Leikurinn fór ekki eins og við ætluðum. Njarðvík spilaði af meiri krafti. Við töpuðum frákastabaráttunni og þeir voru með miklu fleiri stoðsendingar,“ sagði Borche Ilievski, þjálfari ÍR, eftir tapið í Njarðvík.

ÍR-ingar töpuðu frákastabaráttunni, 49-28, og urðu undir í slagnum í leiknum í kvöld.

„Við þurfum að horfa í spegil. Við verðum að spila af krafti. Þessi frammistaða í kvöld, og gegn Keflavík í síðustu umferð, gefur ekkert. Við þurfum að breyta einhverju,“ sagði Borche.

„Við verðum að berjast og spila af meiri krafti. Það hefur vantað í síðustu tveimur leikjum.“

Borche segist hafa áhyggjur af sínu liði eftir tvö slæm töp í röð.

„Ég er áhyggjufullur. Ég segi alltaf við mína menn að það er ekkert vandamál að tapa. Það skiptir hins vegar máli hvernig þú gerir það,“ sagði Borche að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira