Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Breiðablik - Víkingur R. 1-2 | Víkingar sóttu sigur í Kópavoginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Geoffrey Castillion skorar fyrir Víkinga í kvöld.
Geoffrey Castillion skorar fyrir Víkinga í kvöld. vísir/anton
Víkingur R. vann góðan sigur á Breiðabliki, 1-2, þegar liðin mættust á Kópavogsvelli í 15. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld.

Geoffrey Castillion skoraði bæði mörk Víkinga og er nú kominn með fimm mörk í Pepsi-deildinni.

Anton Brink, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum í kvöld og náði þessum myndum hér fyrir neðan.

Blikar komust yfir strax á 3. mínútu þegar Aron Bjarnason slapp í gegnum vörn Víkinga eftir sendingu Arnþórs Ara Atlasonar og skoraði af öryggi.

Castillion jafnaði metin á 12. mínútu eftir að hafa farið afar illa með Þórð Steinar Hreiðarsson, varnarmann Breiðabliks. Tveimur mínútum síðar vildu Víkingar fá víti en Guðmundur Ársæll Guðmundsson, slakur dómari leiksins, dæmdi ekki neitt.

Á 37. mínútu kom vendipunktur leiksins þegar Kristinn Jónsson fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Einum færri gerðu Blikar Víkingum erfitt fyrir og vörðust á köflum vel. En á 70. mínútu skoraði Castillion eftir hornspyrnu og tryggði gestunum úr Fossvoginum þrjú mikilvæg stig.

Af hverju vann Víkingur?

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en rauða spjaldið breytti leiknum. Víkingar sóttu meira í seinni hálfleik en gekk erfiðlega að opna vörn Blika.

Eftir rúman klukkutíma setti Logi Ólafsson, þjálfari Víkings, Veigar Pál Gunnarsson inn á og við það kom aukinn sóknarþungi í leik gestanna. Castillion skoraði skömmu síðar eftir hornspyrnu og Víkingar fengu færi til að skora fleiri mörk á lokakaflanum. Tvö mörk dugðu þeim hins vegar að þessu sinni.

Þessir stóðu upp úr:

Castillion skoraði bæði mörk Víkings og gerði varnarmönnum Breiðabliks lífið leitt í leiknum. Hollendingurinn er sterkur og fljótur og sýndi það í fyrra markinu þegar hann tók Þórð Steinar í nefið.

Ívar Örn Jónsson átti einnig góðan leik í stöðu vinstri bakvarðar og lagði fyrra mark Castillions upp. Veigar Páll átti góða innkomu eins og áður sagði og þá var Róbert Örn Óskarsson vel með á nótunum í marki gestanna og sópaði vel undir varnarlínu þeirra.

Hjá Breiðabliki átti Gísli Eyjólfsson stórgóðan leik í fyrri hálfleik. Aron var einnig ógnandi í framlínunni.

Hvað gekk illa?

Enn og aftur gengur Blikum illa að verjast föstum leikatriðum. Varnarleikurinn í opnum leik var á köflum ágætur en heimamenn sváfu á verðinum þegar Castillion skoraði seinna mark sitt eftir hornspyrnu.

Hvað gerist næst?

Næstu tveir leikir Breiðabliks eru gegn Víkingi Ó. og ÍA. Þeir unnu bæði lið í fyrri umferðinni og vilja vafalítið endurtaka leikinn í þeirri seinni.

Víkingar fá KA-menn í heimsókn í næstu umferð. Með sigri þar gera þeir sig enn meira gildandi í baráttunni um Evrópusæti.

Maður leiksins: Geoffrey Castillion, Víkingi R.

Einkunnir má sjá með því að smella á flipann Liðin hér fyrir ofan


Milos Milojevic í leiknum í kvöld.Vísir/Anton
Milos: Erum mjög veikir í hornspyrnum

Milos Milojevic stýrði Blikum gegn sínum gömlu lærisveinum í Víkingi í kvöld.

Víkingar unnu leikinn 1-2 eftir að hafa verið einum fleiri frá 37. mínútu þegar Kristinn Jónsson fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt.

„Dómarinn sagði að þetta væri rautt spjald og þá er þetta rautt spjald. Báðar tæklingarnar voru gult spjald. Ég er ekkert að setja út á það,“ sagði Milos.

En hvernig fannst Milosi Blikar leysa stöðuna einum færri?

„Það er mjög erfitt fyrir okkur að hlaupa níu á móti 10 en strákarnir gerðu það vel þangað til við fengum á okkur mark úr hornspyrnu. Einhvern veginn erum við mjög veikir í hornspyrnum. Það er mest svekkjandi að við lærum ekki af okkar mistökum. Það kostaði okkur stig,“ sagði Milos sem hrósaði Geoffrey Castillion sem skoraði bæði mörk Víkings í kvöld.

„Hann var yfirburðamaður. Hann er einn af þremur bestu framherjum í deildinni og hann gerði okkur lífið virkilega erfitt.“

Það skapaðist mikið fjaðrafok þegar Milos yfirgaf Víking í vor og var skömmu síðar ráðinn til Breiðabliks. En hvernig fannst honum að stýra Blikum gegn sínu gamla liði?

„Ég hef aldrei stýrt liði á móti Víkingum. Tilfinningin var eins og fyrir alla aðra leiki. Ég vildi vinna, ekkert minna eða meira. En það leit þannig út að strákarnir í Víkingi vildu sérstaklega mikið vinna mig og það er þeim bara til góðs og ég óska þeim til hamingju,“ sagði Milos að lokum.

Vísir/Anton
Logi: Castillion er erfiður viðureignar fyrir hvaða vörn sem er

Logi Ólafsson, þjálfari Víkings, var kátur með stigin þrjú sem hans menn fóru heim með úr Kópavoginum.

Þrátt fyrir að vera einum fleiri í rúmar 50 mínútur þurftu Víkingar að hafa mikið fyrir hlutunum og sigurinn var torsóttur.

„Þótt fæðingar séu erfiðar þykir manni alltaf jafn vænt um börnin sín. Það var vitað að þetta yrði erfiður leikur 11 á móti 11. Og hann er ekkert síður erfiður 10 á móti 11. Boltinn gekk hægt. Þetta var þrautseigja,“ sagði Logi sem hrósaði Veigari Páli Gunnarssyni sem átti góða innkomu í lið Víkings.

„Ég veit hvað Veigar stendur fyrir. Hann getur haldið boltanum og er með þá eiginleika sem við þurfum á að halda þegar við lendum í svona leikjum. Við erum ekki vanir að mæta vörnum sem liggja svona aftarlega og hann nýttist okkur vel í þessari stöðu,“ sagði Logi.

Þjálfarinn er einnig ánægður með Geoffrey Castillion sé byrjaður að skora á nýjan leik.

„Það var gríðarlega mikill fengur að fá hann til baka úr meiðslum. Hann var meiddur í 7-8 vikur en er að öðlast sjálfstraust. Hann er erfiður viðureignar fyrir hvaða vörn sem er,“ sagði Logi.

Víkingar eru með 22 stig í 6. sæti deildarinnar og eiga enn ágætis möguleika á að ná Evrópusæti.

„Við kjósum að horfa upp á við og einbeita okkur að næsta leik. Við höfum tileinkað okkur þá vinnureglu,“ sagði Logi að endingu.





Vísir/Anton
Vísir/Anton
Vísir/Anton
Vísir/Anton
Vísir/Anton

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira