Íslenski boltinn

Blikar munu verja Íslandsmeistaratitilinn í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Breiðabliki var spáð Íslandsmeistaratitlinum í Pepsi-deild kvenna í fótbolta í árlegri spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna sem var kynnt á kynningarfundi vegna Pepsi-deildar kvenna sem fram fór í Ölgerðinni í dag.

Íslandsmeistarar Breiðabliks fengu góða kosningu í efsta sætið en það er styttra á milli Stjörnunnar og Vals sem komu í næstu sætum. Flestir búast þó við meiri spennu en oft áður í baráttu um titilinn.

ÍA og KR er spáð falli í 1. deild en Skagakonur eru nýliðar í deildinni ásamt FH.

Íslandsmeistarar Breiðabliks eru með lítið breytt lið frá því í fyrra og þær tryggði sér sigur í Meistarakeppni KKÍ á dögunum eftir sigur á Stjörnunni í vítakeppni.

Stjörnuliðið missti af Íslandsmeistarabikarnum í fyrra eftir að hafa unnið hann tvö ár þar á undan. Stjörnuliðið missti marga sterka leikmenn í vetur og mætir með breytt lið.

Valskonur enduðu í sjöunda sæti í Pepsi-deildinni síðasta sumar en það mætir gerbreytt Valslið til leiks í sumar. Valsarar hafa styrkt sig mikið fyrir tímabilið og fengið meðal annars landsliðskonurnar Margréti Láru Viðarsdóttur, Elísu Viðarsdóttur og Örnu Sif Ásgrímsdóttur úr atvinnumennsku sem og landsliðsmarkvörðinn Söndru Sigurðardóttur sem hefur unnið fimm stóra titla með Stjörnunni undanfarin fjögur tímabil.

Pepsi-deild kvenna hefst með fjórum leikjum á morgun miðvikudag en lokaleikur umferðarinnar er síðan nýliðaslagur upp á Akranesi á laugardaginn. Leikur Stjörnunnar og Þór/KA verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.



Spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna 2016:

1. Breiðablik 282

2. Stjarnan 247

3. Valur 231

4. ÍBV 208

5. Þór/KA 179

6. Fylkir 164

7. Selfoss 140

8. FH 78

9. ÍA 62

10. KR 59




Fleiri fréttir

Sjá meira


×