Erlent

Allir farþegar vélarinnar létu lífið

Samúel Karl Ólason skrifar
Vélin var af gerðinni Airbus 321.
Vélin var af gerðinni Airbus 321. Vísir/AFP
Allir farþegar rússnesku flugvélarinnar sem brotlenti á Sinai-skaga í morgun létu lífið. 224 voru um borð í vélinni að áhafnarmeðlimum meðtöldum og er búið að finna og flytja á brott fjölda líka. Þar að auki hefur flugriti vélarinnar verið fundinn.

Björgunarmenn segja aðkomuna að brotlendingarstaðnum hafa verið einkar slæma. Lík hafi fundist á stóru svæði og þau hafi jafnvel enn verið föst í sætum vélarinnar. Af farþegum vélarinnar voru 214 þeirra frá Rússlandi og þrír frá Úkraínu.

Sjá einnig: Flugmaðurinn tilkynnti tæknilega örðugleika.

Yfirvöld Rússlands hafa birt lista yfir farþega vélarinnar. Samkvæmt AFP fréttaveitunni má þar sjá allt frá tíu mánaða gamalli stúlku og 77 ára gamalli konu.

Um tvö leytið í dag birtu ISIS-liðar á Sinai-skaga yfirlýsingu þar sem þeir segjast bera ábyrgð á slysinu, en ólíklegt þykir að þeir hafi skotið vélina niður.

Uppfært 15:20

Tilkynning ISIS er mjög óljós og yfirvöld í Bandaríkjunum, Rússlandi og víðar, segja þá ekki hafa burði til þess að skjóta vélina niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×