Fótbolti

Kári Árnason spilar í Meistaradeildinni í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Malmö fagna marki í kvöld. Kári Árnason er fyrir aftan.
Leikmenn Malmö fagna marki í kvöld. Kári Árnason er fyrir aftan. Vísir/AFP
Kári Árnason og félagar í sænska liðinu Malmö slógu skoska liðið Celtic út úr umspili Meistaradeildarinnar í fótbolta í kvöld.

Malmö vann þá seinni leik liðanna 2-0 og þar með 4-3 samanlagt en Skotarnir höfðu unnið fyrri leikinn 3-2 á heimavelli.

Malmö-liðið minnkaði muninn í 3-2 á fimmtu mínútu í uppbótartíma í fyrri leiknum og það mark breytti miklu eins og sást í leiknum í kvöld.

Malmö var sterkara liðið og Skotarnir áttu erfitt uppdráttar á móti Svíunum sem voru vel studdir af stuðningsmönnum sínum.

Kári Árnason lék allan leikinn í miðri vörn Malmö-liðsins og fær nú tækifæri til að spila í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í vetur.

Markus Rosenberg skoraði fyrra markið á 23. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Yoshimar Yotún en Kári Árnason hélt varnarmönnum Celtic þá uppteknum.

Þetta mark hefði dugað Malmö en liðið hefði þá farið áfram á fleiri mörkum á útivelli.

Malmö bætti hinsvegar öðru marki við á 54. mínútu þegar sænska liðið skoraði aftur eftir hornspyrnu. Felipe Carvalho átti skalla að marki en á endanum var það Dedryck Boyata sem sendi boltann í eigið mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×