
Fréttir

Stefndi farþegum og flugliðum í hættu með slagsmálum
Stjórnendur Flugfélags Íslands telja að maðurinn, sem efndi til slagsmála um borð í Fokker-vél félagsins á leið frá Egilsstöðum til Reykjavíkur í gærkvöldi, hafi stefnt farþegum og flugliðum í hættu.

Fjárlögum vísað til þriðju umræðu
Atkvæðagreiðslu eftir aðra umræðu um fjárlög ársins 2007 lauk nú fyrir stundu og var samþykkt að vísa þeim til þriðju umræðu. Þingmenn stjórnarmeirihlutans greiddu því atkvæði en stjórnarandstaðan sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Tillaga að framboðslista í NV-kjördæmi kynnt á morgun
Tillaga að endanlegum lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi þingkosningar verður kynnt á kjördæmisþingi í Reykjaskóla í Hrútafirði um helgina, en samkvæmt henni skipa þátttakendur úr prófkjöri flokksins í kjördæminu sjö af níu efstu sætum listans. Skessuhorn birtir listann og segist hafa hann samkvæmt áreiðanlegum heimildum.

Viðurkennir árás á karlmann á sjötugsaldri
Ungur maður hefur viðurkennt við yfirheyrslur hjá lögreglunni í Reykjavík að hafa ráðist á karlmann á sjötugsaldri í Öskjuhlíð á fösutdagskvöldið var. Eins og fram er komið réðust fjórir ungir karlmenn að manninum með þeim afleiðingum að hann hlaut alvarlega áverka í andliti og missti fjórar tennur.

Beðið eftir niðurstöðum rannsókna í Svíþjóð
Erninum Sigurerni verður ekki sleppt í dag eins og fyrirhugað var. Í morgun þegar menn voru í þann mund að fanga hann í Húsdýragarðinum komu fyrirmæli frá yfirdýralækni um að sleppa fuglinum ekki. Að hans sögn er beðið eftir niðurstöðum sýna sem tekin voru fyrr í vikunni en kanna á hvort í fuglinum reynist mótefni gegn vægum tegundum af fuglaflensu.

„Herra Pútín, þú myrtir mig“
Alexander Litvinenko, fyrrverandi KGB-njósnarinn sem lést í Lundúnum í gærkvöldi, sakar Vladímír Pútín um að hafa myrt sig í yfirlýsingu sem hann skrifaði fyrir lát sitt.

Geir vill skýrari iðrun Árna
Brot Árna Johnsen voru alvarleg og villandi að tala um þau sem "tæknileg mistök" að mati forsætirsráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Formaðurinn vill að Árni sýni iðrun sína með skýrari hætti. Kjördæmisþing flokksins í Suðurkjördæmi hefur enn ekki samþykkt framboðslistann þar sem Árni hlaut annað sætið.

Olíuverð hækkaði lítillega
Heimsmarkaðverð á hráolíu hækkaði lítillega í rafrænum viðskiptum á markaði í Bandaríkjunum í dag. Búist er við nokkurri eftirspurn eftir eldsneyti vestanhafs um helgina en Þakkargjörðarhátíðin er nú að renna þar í garð. Verðið hefur lækkað um 23 prósent síðan það náði hámarki í júlí í sumar.

Segir ríkið refsa vel reknum ríkisfyrirtækjum
Gísli S. Einarson, bæjarstjóri á Akranesi, segir ljóst að fái sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi ekki fjárframlög við afgreiðslu fjáraukalaga sé ríkisvaldið að refsa þeim ríkisfyrirtækjum sem standa sig vel í rekstri. Þetta kemur fram á fréttavefnum Skessuhorni.

Varar Ástrala við afskiptum af Fiji eyjum
Yfirmaður hersins á Fiji eyjum hefur varað Ástralíu og Nýja Sjáland við að skipta sér af innanríkismálum á eyjunum, eftir að utanríkisráðherra Ástralíu sagði að þeir hefðu skýrar sannanir fyrir því að herforinginn væri að undirbúa valdarán innan tveggja vikna.

Yfirdýralæknir: Ekki sleppa Sigurerni
Erninum Sigurerni verður ekki sleppt í dag því í morgun þegar menn voru í þann mund að fanga hann í Húsdýragarðinum komu fyrirmæli frá yfirdýralækni um að sleppa fuglinum ekki. Að hans sögn er beðið eftir niðurstöðum sýna sem tekin voru fyrr í vikunni.

Segja skrýtið að skattur af geisladiskum sé lækkaður en ekki af lyfjum
Samtök framleiðenda frumlyfja, Frumtök, segja það skjóta skökku við að í umræðum um lækkun virðisaukaskatts á ýmsm nauðsynjum sé ekki rætt um lækkun skatts á lyfjum. Fram kemur í tilkynningu frá Frumtökum að lyf beri nú 24,5 prósenta virðisaukaskatt en hins vegar sé stefnt að því að lækka virðisaukaskatt á bæði gosdrykkjum og geisladiskum.

Hamas og Abbas aftur í hár saman
Hamas samtökin saka Mahmoud Abbas, forseta, um að hafa sett fram ný og óaðgengileg skilyrði fyrir myndun þjóðstjórnar.

Hluthafar hindra yfirtöku á Aer Lingus
Sjóður í eigu starfsmannafélags írska flugfélagsins Aer Lingus, sem á stóran hlut í flugfélaginu, hefur fellt yfirtökutilboð írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair í félagið. Breska ríkisútvarpið segir sjóðinn geta komið í veg fyrir yfirtöku Ryanair á Aer Lingus.

Prófkjör hjá sjálfstæðismönnum í Norðausturkjördæmi á morgun
Sjálfstæðismenn í Norðausturkjördæmi ákveða á morgun í prófkjöri hvernig framboðslisti þeirra fyrir komandi þingkosningar kemur til með að líta út. Kosið verður á 22 stöðum í kjördæminu en auk þess var kosið í Grímsey á miðvikudaginn var.

Rúanda hótar stjórnmálaslitum við Frakkland
Rúanda hefur kvatt sendiherra sinn í Frakklandi heim, og hótar að slíta stjórnmálasamband við landið, eftir að franskur dómari gaf út handtökuskipun á hendur níu háttsettum embættismönnum í Rúanda.

Tvöföldun Suðurlandsvegar verði tryggð tafarlaust
Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Árborg skorar á Alþingi og ríkisstjórn að tryggja tvöföldun Suðurlandsvegar án tafar með lögfestingu verksins á vegaáætlun. Þetta kemur fram í ályktun frá ráðinu. Þar segir einnig að umferð á veginum hafi tvöfaldast á fáum árum auk þess sem bent er á að skipaflutningar hafi lagst af með fram ströndum og fari nú þungaflutningar um vegi landsins.

Er enn haldið sofandi í öndunarvél
Karlmaður sem brenndist illa í eldsvoða í Ferjubakkanum þann 7. nóvember síðastliðinn, er enn á gjörgæsludeild, þar sem honum er haldið sofandi í öndunarvél. Eiginkona hans lést af sárum sínum.

Krónprins Danmerkur á ferð um Ástralíu
Friðrik, krónprins Danmerkur, og Mary eiginkona hans eru á ferðalagi um Ástralíu. Mary er fædd á eynni Tasmaníu sem er hluti af Ástralíu. Ástralir telja sig eiga dálítið í dönsku konungfjölskyldunni og hafa fylgst vel með ferð hjónanna um landið.

Sony innkallar stafrænar myndavélar
Japanski hátækniframleiðandinn Sony hefur ákveðið að innkalla átta gerðir stafrænna myndavéla vegna galla í myndnema sem gerir það að verkum að notendur geta átt í erfiðleikum með að sjá á skjá vélarinnar þegar þeir taka myndir. Forsvarsmenn Sony hafa neitað að tjá sig um það hversu margar myndavélar verði innkallaðar.

Yfir tvö hundruð látnir eftir árásir í Bagdad
Tala látinna eftir hrinu árása í Sadr-hverfi í Bagdad í gær er nú komin upp í 202 og þá eru um 250 sárir. Árásin er sú mannskæðasta frá því að Bandaríkjamenn réðust inn í landið ásamt bandamönnum sínum í mars árið 2003.

Beita sér ekki gegn yfirtöku á Qantas
Ríkisstjórn Ástralíu ætlar ekki að beita sér gegn því að ástralski bankinn Macquire og bandaríska fjárfestingafélagið Texas Pacific geri yfirtökutilboð í ástralska flugfélagið Qantas.

Evróvisjónævintýri Silvíu Nætur klúður ársins
Evróvisjónævintýri Silvíu Nætur var valið klúður ársins, þegar Gullkindin svonefnda var veitt í gærkvöldi. Hún er veitt þeim sem með einhverju móti hafa staðið sig sérlega illa á árinu. Búbbarnir þóttu versti sjónvarpsþátturinn og heiðursverðlaunin, sem er vafasamasti heiðurinn, fékk Árni Johnsen, væntanlega fyrir tæknileg mistök.

Vilja meina för ráðherra á fund NATO
Fulltrúar samtaka herstöðvaandstæðinga ætla í dag að fara fram á það við sýslumanninn í Reykjavík, að hann setji lögbann á för íslenskra ráðherra á fund Atlantshafsbandalagsins, sem haldinn verður í Riga í Lettalandi í næstu viku.

Fíkniefni í söluumbúðum fundust
Lögreglan í Kópavogi handtók ungan mann í nótt eftir að hafa fundið nokkra skammta af fíkniefnum í söluumbúðum í fórum hans. Í framhaldinu var gerð húsleit heima hjá honum og þar fannst talsvert af hassi, marijúana, amfetamíni og ofskynjunarefnum, sem talið er víst að maðurinn hafi ætlað til sölu.

Þjófar létu greipar sópa
Bíræfinn þjófur, eða þjófar, létu greipar sópa um alla skápa og hirslur í tveggja hæða einbýlishúsi í Mosfellsbæ í gærdag, þegar íbúar voru að heiman, og nemur andvirði þýfisins hundruðum þúsunda, ef ekki milljónum króna.

Björgólfur selur tékkneskt fjarskiptafyrirtæki
Félög, sem að mestu eru í eigu Björgólfs Thor Björgólfssonar hafa selt eignarhlut sinn í tékkneska fjarskiptafyrirtækinu C-Ra, fyrir um 120 milljarða króna. Þetta mun vera stærsta fyrirtækjasala Íslendinga í útlöndum til þessa.
Rútubíll valt á leið til Oslóar
Tíu farþegar slösuðust, þar af tveir alvarlega, þegar rútubíll með fimmtíu og fimm farþega á leið frá Þrándheimi til Oslóar valt út af veginum í Dofrafjöllum í nótt. Talið er að vindhviða hafi feykt bílnum út af veginum. Fólkið braut sér leið út úr flakinu og sóttu þyrlur þá mest slösuðu.

Útgöngubann í Írak eftir mannskæða árás
Útgöngubann hefur sett á í Bagdad í Írak um óákveðinn tíma eftir eina mannskæðustu árás í landinu frá innrás Bandaríkjamanna árið 2003. Að minnsta kosti eitt hundrað fjörtíu og fjórir týndu lífi í sprengjuárás á fátækrahverfi Sjía í Bagdad í gær og talið er að hátt í þrjú hundruð manns hafi særst.

"Föstudagurinn svarti" að renna upp
Bandarískir neytendur búa sig nú undir "Föstudaginn svarta" en sá dagur, dagurinn eftir að Þakkagjörðarhátíðinni lýkur þar ytra, er upphafsdagur jólaverslunar í Bandaríkjunum. Á þeim degi í fyrra streymdu tvær milljónir bandaríkjamanna í verslunarleiðangur og þá bara í Wal-Mart. Og það aðeins á fyrsta klukkutímanum sem opið var.