Menning

Húsó fjar­lægðir af Rúv eftir á­greining um kreditlista

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Dóra Jóhannsdóttir segir sjónvarpsþáttaröðina Húsó vera byggð á sinni eigin reynslu.
Dóra Jóhannsdóttir segir sjónvarpsþáttaröðina Húsó vera byggð á sinni eigin reynslu. Vísir/Vilhelm

Sjónvarpsserían Húsó hefur verið fjarlægð fyrr en áætlað var af vefsíðu Ríkisútvarpsins. Dóra Jóhannsdóttir, einn handritshöfunda þáttanna, segir að þættirnir verði settir inn aftur þegar framleiðandi afhendir réttan kreditlista. Hún sjálf berst fyrir því að nafn hennar sé sett á kreditlistann.

Dóra greinir frá fregnunum á Facebook-síðu sinni.

„Rúv hefur sagt að þáttaröðin verði sett aftur inn þegar framleiðandi afhendir uppfærðan og réttan kreditlista, en verkið var bæði frumsýnt og endursýnt af Rúv án þess að ég fengi lögbundinn höfundakredit,“ segir Dóra.

Hvorki nafn Dóru né dulnefni hennar, Hekla Hólm, er á kreditlista þáttanna. Nafn hennar var fyrst tengt þáttunum þegar hún var tilnefnd til Íslensku sjónvarpsverðlaunanna fyrir besta handrit. Hún, auk Arnórs Pálma Arnarsonar og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur, unnu verðlaunin.

„Húsó er sagan mín, byggir á minni eigin reynslu,“ sagði Dóra í þakkarræðu sinni.

„Enginn vafi liggur á aðkomu minni að þáttaröðinni Húsó. Engin svör hafa þó fengist um hvenær framleiðandi hyggst afhenda þættina með leiðréttum kreditlista, þrátt fyrir að framleiðendum beri lögum samkvæmt að veita höfundum kredit,“ segir hún.

Þættirnir voru framleiddir af framleiðslufyrirtækinu Glassriver. Dóra segir málið aldrei hafa varðað ágreining milli höfunda heldur um að „framleiðendur virði sæmdarrétt“. Hún hafi sjálf ítrekað óskað eftir að henni og Rúv yrði afhentur uppfærður og réttur kreditlista en ekki fengið það í gegn. 

Sjá nánar: Bandalag listamanna lýsir yfir stuðningi við Dóru






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.