Enski boltinn

Alisha Lehmann verður nýr liðsfélagi Hlínar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alisha Lehmann sést hér í myndatöku á King Power-leikvanginum þar sem hún var kynnt sem nýr leikmaður Leicester City.
Alisha Lehmann sést hér í myndatöku á King Power-leikvanginum þar sem hún var kynnt sem nýr leikmaður Leicester City. Getty/Leicester City

Svissneska knattspyrnukonan Alisha Lehmann hefur skrifað undir samning við Leicester City og snýr aftur í ensku úrvalsdeildina.

Lehmann verður þar með nýr liðsfélagi íslensku landsliðskonunnar Hlínar Eiríksdóttur en sú svissneska hefur skrifað undir tveggja og hálfs árs samning, sem þýðir að Lehmann verður að minnsta kosti hjá félaginu til sumarsins 2028.

Lehmann, sem lék síðast í ensku úrvalsdeildinni með Aston Villa áður en hún fór til Juventus árið 2024, kemur til félagsins frá FC Como.

Þessi 27 ára gamli leikmaður var í sex ár í efstu deild Englands og lék með West Ham og Everton auk þess að vera síðast hjá Villa.

Tímabil hjá Juventus fylgdi í kjölfarið þar sem hún hjálpaði liði sínu að vinna tvöfalt, bæði deildina og bikarinn.

„Þetta er ótrúleg tilfinning og ég er svo ánægð með að vera hér. Það er eins og að koma heim, að koma aftur til Englands, og ég er virkilega ánægð,“ sagði Alisha Lehmann við miðla Leicester City.

„Leicester er frábært félag. Ég hef séð æfingasvæðið og auðvitað leikvanginn. Þau vilja efla kvennaknattspyrnu,“ sagði Lehmann.

Lehmann gengur til liðs við Leicester sem situr í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×