Enski boltinn

Guardiola segir að Haaland sé úr­vinda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það hefur verið mikið álag á Erling Haaland hjá Manchester City og hann er farinn að þreytast sem knattspyrnustjóri hans tekur undir.
Það hefur verið mikið álag á Erling Haaland hjá Manchester City og hann er farinn að þreytast sem knattspyrnustjóri hans tekur undir. Getty/ Robbie Jay Barratt

Það hefur hægst verulega á markaskori norska framherjans Erling Braut Haaland að undanförnu og hann náði ekki að skora í undanúrslitum enska deildabikarsins í gærkvöldi.

Haaland lék allar nítíu mínúturnar en komst ekki á blað. Þetta var í fimmta sinn í síðustu sex leikjum sem Haaland kemst ekki á blað og eina markið hans í síðustu sex leikjum kom úr vítaspyrnu.

Haaland skoraði hins vegar 25 mörk í fyrstu 23 leikjum tímabilsins, þar af nítján mörk í fyrstu sautján deildarleikjunum.

Eftir leikinn á móti Newcastle í gær afhjúpaði knattspyrnustjórinn Pep Guardiola að Norðmaðurinn væri líklega að ganga á síðustu dropunum. Leikjaálagið á Englandi tekur sinn toll:

„Vonandi kemur Omar [Marmoush] fljótlega aftur til að gefa Erling smá hvíld, því hann er úrvinda,“ sagði Spánverjinn að sögn Sam Lee hjá The Athletic.

Antoine Semenyo skoraði sitt annað mark fyrir City í tveimur leikjum eftir félagaskiptin frá Bournemouth. En það var markið sem hann fékk ekki dæmt gilt sem varð aðalumræðuefnið.

Vandinn var að annar fótur Haalands var rangstæður, en hafði hann áhrif á spilið?

Já, töldu dómarinn Chris Kavanagh og VAR-teymið eftir fimm mínútna og 42 sekúndna umhugsun.

„Ef þeir hefðu dæmt markið gilt hefði enginn horft á þetta og hugsað að það hefði ekki átt að standa. En samkvæmt reglunum, og hvort sem okkur líkar það betur eða verr, er ákvörðunin rétt,“ sagði fótboltasérfræðingurinn Jamie Redknapp hjá Sky Sports að lokum.

Newcastle sótti í sig veðrið undir lokin en ljósu lokkar Nick Woltemade voru rétt of stuttir til að hann næði að skalla að marki. Þess í stað tryggði Rayan Cherki City 2-0 sigur með skyndisókn.

Seinni leikurinn fer fram í Manchester þann 4. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×