Enski boltinn

Benoný tryggði sigurinn á ögur­stundu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Benoný skoraði fyrsta deildarmark sitt á leiktíðinni.
Benoný skoraði fyrsta deildarmark sitt á leiktíðinni. stockport

Benoný Breki Andrésson skoraði sigurmark Stockport á sjöttu mínútu uppbótartíma gegn Huddersfield Town á Englandi í dag.

Um var að ræða sex stiga leik í baráttunni um umspilssæti í efri hluta deildarinnar. Efstu tvö liðin fara beint upp í B-deildina en næstu fjögur fyrir neðan, í 3.-6. sæti fara í umspil um sæti í deildinni.

Stockport og Huddersfield voru jöfn að stigum í 4.-5. sætinu, með 39 stig, níu stigum á eftir Lincoln City í öðru sæti og tólf á eftir toppliði Cardiff.

Bæði þykja líkleg til að fara í umspilið en baráttan er jöfn. Benoný Breki byrjaði á bekknum hjá Stockport en hann hefur glímt við meiðsli í vetur. Hann spilaði korter í leiknum á undan við Reading en hafði fyrir það ekki spilað síðan í nóvember.

Hann kom inn sem varamaður þegar tæpur hálftími var eftir en lét lítið að sér kveða. Þar til í lokin. Á sjöttu mínútu uppbótartíma barst boltinn til hans í teignum og hann kom honum í netið af stuttu færi.

Um er að ræða fyrsta mark Benonýs í deildinni á tímabilinu en hann var aðeins að spila sinn tólfta leik.

Stockport vann leikinn 1-0 og er í fjórða sæti með 42 stig, fjórum stigum frá Bradford City sem er sæti ofar. Huddersfield er með 39 stig líkt og Bolton Wanderers, sem eru í næstu sætum á eftir Stockport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×