Sport

„Ég hata það að þurfa að gera þetta mynd­band“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chloe Kim meiddist á öxl og gæti mögulega misst af Ólympíuleikunum í næsta mánuði.
Chloe Kim meiddist á öxl og gæti mögulega misst af Ólympíuleikunum í næsta mánuði. Getty/Maddie Meyer

Ein af stærstu stjörnum Ólympíuliðs Bandaríkjanna er í kapphlaupi við tímann eftir kjánalegt fall á æfingu eins og hún orðar það.

Hin 25 ára gamla snjóbrettakona Chloe Kim hefur unnið tvö Ólympíugull í röð í hálfpípu. Nú er sögulegt þriðja gull í röð í mikilli hættu.

„Ég hata það að þurfa að gera þetta myndband,“ segir Kim í upphafi færslu sinnar á Instagram.

Kim er í Sviss að undirbúa sig fyrir Ólympíuleikana í Mílanó og Cortina á Ítalíu. Á æfingu missti hún jafnvægið á leið í stökk og lenti með efri hluta líkamans beint á veggnum í hálfpípunni.

„Ég datt á kjánalegan hátt og fór úr axlarlið,“ segir hún enn fremur. Kim fer í röntgenmyndatöku á föstudag. Þar verður alvarleiki meiðslanna metinn.

„Ég er ekki með mikla verki,“ segir hún. Kim stefnir að því að verða fyrsta konan til að vinna þrjú Ólympíugull í röð í hálfpípu. Fyrsta gullið vann hún sautján ára gömul í Suður-Kóreu árið 2018.

„Ég reyni að vera bjartsýn. Mér líður mjög vel með hvar ég er stödd í brekkunni og verð tilbúin um leið og ég fæ grænt ljós frá læknunum,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×