Fótbolti

Ný­fæddur sonur Stefáns Teits tefur félagaskiptin

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Landsliðsmaðurinn Stefán Teitur Þórðarson er á leið til Hannover 96 í þýsku B-deildinni. 
Landsliðsmaðurinn Stefán Teitur Þórðarson er á leið til Hannover 96 í þýsku B-deildinni.  Vísir/Getty

Stefán Teitur Þórðarson er á leiðinni til Hannover 96 í Þýskalandi frá Preston North End á Englandi en félagaskiptin verða ekki fullkláruð fyrr en í næstu viku. 

Þýska stórblaðið Bild greinir frá því að Stefán hafi gengist undir læknisskoðun hjá Hannover 96 á þriðjudag og náð samkomulagi um laun. Hann muni gera samning til ársins 2029 og kosta félagið um fjögur hundruð þúsund evrur.

Miðjumaðurinn muni hins vegar ekki skrifa undir samninginn fyrr en í næstu viku því fyrst þarf hann að ganga frá fjölskyldumálum.

Stefán og Sæunn Rós Ríkharðsdóttir eignuðust sitt fyrsta barn, Theodór Oliver Stefánsson, þann 28. desember síðastliðinn.

Þar sem drengurinn fæddist í Bretlandi þarf að skrásetja hann þar í landi og það er verkefni dagsins hjá Stefáni og Sæunni. Þau eru, samkvæmt Bild, á leiðinni til sýslumannsins í Preston í dag að sækja fæðingarvottorð, vegabréf og fleira.

Hannover 96 er í æfingabúðum í Belek í Tyrklandi til að undirbúa sig fyrir seinni hluta tímabilsins en snýr aftur til Þýskalands í næstu viku. Þar verður Stefán Teitur boðinn velkominn til félagsins.

Næsti leikur liðsins í þýsku B-deildinni er gegn Kaiserslautern þann 18. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×