Sport

Haukur klár í stærra hlut­verk

Stefán Árni Pálsson skrifar
Haukur verður í eldlínunni næstu vikurnar með íslenska landsliðinu.
Haukur verður í eldlínunni næstu vikurnar með íslenska landsliðinu. Vísir/bjarni

„Stemningin er bara mjög góð eins og hún er alltaf á þessum tímapunkti að fara að byrja þetta og við erum bara spenntir að koma okkur út og spila fyrstu æfingaleikina, klára þennan undirbúning og gera það vel,“ segir Haukur Þrastarson fyrir æfingu íslenska landsliðsins í handbolta í Safamýrinni í gær.

Liðið tekur þátt á Evrópumótinu í handbolta síðar í þessum mánuði og mætir þar Ítölum, Pólverjum og Ungverjum í riðlinum sem leikinn er í Kristianstad í Svíþjóð. Mótið fer einnig fram í Danmörku og Noregi.

„Þetta er snúinn riðill eins og allir riðlar í þessu móti. Okkar riðill er erfiður en það er mikilvægt að einbeita sér fyrst bara að honum og vinna hann,“ segir Haukur sem hefur glímt við erfið meiðsli undanfarin ár. Í dag er leikmaðurinn aftur á móti í toppstandi og hefur verið með betri leikmönnum þýsku bundesligunnar þar sem hann spilar með Rhein-Neckar Löwen. Hann var til að mynda stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar fyrir áramót.

Vill spila sem mest

„Ég er eiginlega búinn að vera alveg meiðslafrír þetta tímabilið og er búinn að vera í góðu formi, og það hefur allt gengið vel. Ég hef verið að finna mig vel á nýjum stað og í nýrri deild.“

Haukur gæti þurft að taka á sig stærra hlutverk á gólfinu með landsliðinu á þessu móti.

„Maður er alltaf klár í það og vill alltaf spila sem mest. En hvert sem mitt hlutverk verður, þá verð ég klár,“ segir Haukur en hér að neðan má sjá viðtalið í heild sinni.

Klippa: Haukur klár í stærra hlutverk



Fleiri fréttir

Sjá meira


×