Enski boltinn

„Enn og aftur getum við engum nema sjálfum okkur um kennt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arne Slot, knattspyrnustjóra Liverpool, er ekki að takast að koma sínu liði í lang og tvö jafntefli í fyrstu leikjum ársins er eitt dæmið um það.
Arne Slot, knattspyrnustjóra Liverpool, er ekki að takast að koma sínu liði í lang og tvö jafntefli í fyrstu leikjum ársins er eitt dæmið um það. Getty/Liverpool FC/

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, var vonsvikinn eftir að Liverpool missti frá sér sigur á Fulham í ensku úrvalsdeildinni í dag með því að fá á sig jöfnunarmark á sjöundu mínútu uppbótartímans.

„Ef leikurinn hefði endað 1-1 hefði ég kannski samt verið vonsvikinn, en þegar þú ert 2-1 yfir í uppbótartíma og færð svo á þig mark sem jafnar í 2-2, þá erum við vonsviknir með úrslitin,“ sagði Arne Slot í samtali við BBC Match of the Day, eftir leikinn.

„Þetta var ótrúlegt skot“

„Þetta var ótrúlegt skot. Þegar staðan var 1-1 gerðum við sóknarsinnaða skiptingu með Chiesa til að reyna að vinna leikinn og komumst svo 2-1 yfir og þurftum að verjast löngu innkasti. Við settum Gomez inn á því hann er mjög góður í loftinu en þeir tóku ekki langt innkast, þeir tóku það stutt, og þetta var ótrúlegt skot. Þetta er ekki í fyrsta sinn á þessu tímabili sem við fáum á okkur mark á síðustu sekúndum leiksins,“ sagði Slot.

Höfum misst svo mörg stig

„Við höfum misst svo mörg stig. Auðvitað er það svekkjandi. Það er líka svekkjandi að fyrsta færi þeirra í leiknum fari inn, það er heldur ekki í fyrsta sinn. Svo fengu þeir annað færi þegar Alisson var kominn út úr markinu og þeir vippuðu boltanum í slána,“ sagði Slot.

„Að öðru leyti finnst mér það nokkuð gott þegar þú spilar á útivelli og gefur varla færi á þér. Það var ekki eins og við hefðum skapað færi á færi ofan, það var ekki staðan, en rétt áður en þeir skoruðu og komust í 1-0 fengum við svipað færi þar sem við vorum nálægt,“ sagði Slot.

Reitt okkur á heppni allt tímabilið

„Í hvert einasta skipti er það bara ekki nóg. Við höfum reitt okkur á heppni og óheppni allt tímabilið og það er eitthvað sem við verðum að bæta. Við verðum að bæta okkur þannig að skot á síðustu mínútu leiði ekki strax til þess að við missum stig. Það er það sem við erum að reyna að gera en höfum ekki náð enn,“ sagði Slot.

Ættu að fá umbun endrum og sinnum

„Mér líkaði seinni hálfleikurinn okkar betur en sá fyrri. Við stjórnuðum leiknum og vorum nokkrum sinnum nálægt, auðvitað viltu alltaf meira,“ sagði Slot.

 „Það er það sem við sýndum í seinni hálfleik; tvö mörk dæmd af, skot í slá, eitt mark, það er helst það sem þú vilt sjá þegar svo margir sóknarmenn eru fjarverandi. Strákarnir ættu að fá umbun endrum og sinnum en við fáum hana ekki og enn og aftur getum við engum nema sjálfum okkur um kennt,“ sagði Slot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×