Enski boltinn

„Knattspyrnustjórar eru ekki töfra­menn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pep Guardiola þvertekur fyrir að vera göldróttur.
Pep Guardiola þvertekur fyrir að vera göldróttur. getty/Catherine Ivill

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segist ekki hafa fundið neina töfralausn til að snúa gengi liðsins við.

City gerði góða ferð til Nottingham á laugardaginn og vann Forest, 1-2. Þetta var áttundi sigur liðsins í öllum keppnum í röð.

City endaði í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og féll úr leik fyrir Real Madrid í umspili um sæti í útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu. 

Nú er öldin önnur en Guardiola segist ekki eiga allan heiðurinn af viðsnúningi Manchester-liðsins.

„Knattspyrnustjórar eru ekki töframenn sem ákveða hvað þeir ætla að gera, smella fingrum og allt verður ljóst,“ sagði Guardiola.

„Stundum þarftu tíma. Hversu oft sástu mig dæma og gagnrýna félagið á síðasta tímabili? Ég hefði getað gert það. Hversu oft? Aldrei. Þetta snýst ekki um þig eða þig eða þig. Það var einhver þoka í Manchester, í kringum æfingasvæðið. Eitthvað vantaði.“

City er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fjörutíu stig, tveimur stigum á eftir toppliði Arsenal.

Næsti leikur City, og sá fyrsti á árinu 2026, er gegn spútnikliði Sunderland á Ljósvangi á nýársdag.


Tengdar fréttir

Cherki aðalmaðurinn í sigri City

Rayan Cherki var í aðalhlutverki þegar Manchester City vann 2-1 sigur á Nottingham Forest á City Ground í ensku úrvalsdeildinni í hádeginu. City fór á topp deildarinnar með sigrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×