Fótbolti

Mo Salah tryggði Egyptum sigur annan leikinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah fékk góða hvíld fyrir Afríkumótið og er að byrja mótið með tveimur sigurmörkum í fyrstu tveimur leikjunum.
Mohamed Salah fékk góða hvíld fyrir Afríkumótið og er að byrja mótið með tveimur sigurmörkum í fyrstu tveimur leikjunum. Getty/Stringer

Egyptaland hefur unnið tvo fyrstu leiki sína á Afríkumótinu í fótbolta og þjóðin getur þakkað Liverpool-manninum Mohamed Salah fyrir það.

Annan leikinn í röð skoraði Salah sigurmarkið og þjóðhetjan er heldur betur að standa undir nafni í byrjun mótsins.

Egyptar unnu 1-0 sigur á Suður-Afríku í dag þrátt fyrir að leika manni færri allan seinni hálfleikinn.

Sigurmark Salah kom úr vítaspyrnu á 45. mínútu en Salah fiskaði vítið sjálfur.

Á annarri mínútu í uppbótatíma fyrri hálfleiks fékk liðsfélagi hans, Mohamed Hany, sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Manchester City-framherjinn Omar Marmoush var tekinn af velli í hálfleik til að þétta raðirnar í seinni hálfleiknum, tíu á móti ellefu.

Það tókst að halda út og niðurstaðan því 1-0 sigur og þar með fullt hús í efsta sæti riðilsins. Lokaleikurinn í riðlinum er á móti Angóla sem hefur aðeins eitt stig út úr fyrstu tveimur leikjum sínum.

Salah skoraði einnig sigurmarkið í 2-1 sigri á Simbabve í fyrsta leik en það mark hans kom ekki fyrr en í uppbótatíma leiksins.

Mo Salah er alls kominn með 65 mörk í 111 landsleikjum fyrir Egyptaland, þar af eru sex þeirra frá þessu ári. Hann vantar aðeins fjögur mörk til að jafna markamet Hossam Hassan (69 mörk frá 1985 til 2006).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×