Fótbolti

Frönsk fótboltagoðsögn lést á jólunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jean-Louis Gasset sést hér í starfi sínu sem þjálfari Olympique de Marseille en þessi var tekin í undanúrslitaleik í Evrópudeildinni 2024.
Jean-Louis Gasset sést hér í starfi sínu sem þjálfari Olympique de Marseille en þessi var tekin í undanúrslitaleik í Evrópudeildinni 2024. Getty/Jean Catuffe/

Hinn þaulreyndi franski fótboltamaður og þjálfari Jean-Louis Gasset er látinn, 72 ára að aldri.

Fjölskylda Gasset tilkynnti andlátið í skilaboðum til franska stórblaðsins L'Équipe. Hann lést á föstudagsmorgun, öðrum degi jóla, að því er dagblaðið greinir frá. L'Équipe lýsir honum sem goðsagnakenndri persónu í frönskum fótbolta.

Gasset var þekktur þjálfari um árabil. Auk þess að hafa stýrt sögufrægum félögum eins og Saint-Étienne, Bordeaux, Marseille og Montpellier, var hann um tíma landsliðsþjálfari Fílabeinsstrandarinnar (2022–2024).

Kylian Mbappé, leikmaður Real Madrid og franska landsliðsins, var einn af þeim sem vottuðu Jean-Louis Gasset virðingu sína á samfélagsmiðlum.

Á leikmannaferli sínum var Gasset miðjumaður hjá fyrrnefndu Montpellier í áratug.

„Það er með mikilli sorg sem við segjum fréttir í dag af andláti Jean-Louis Gasset. Hann var stórkostleg persóna í sögu félagsins og fór síðar til annarra stórra félaga sem þjálfari,“ skrifar Montpellier í tilkynningu á föstudag.

Frá 2010 til 2012 var Gasset aðstoðarmaður Laurent Blanc hjá franska landsliðinu og hann hafði einnig gegnt aðstoðarhlutverkum hjá PSG og Espanyol. Hann kynntist Blanc á meðan þeir spiluðu báðir með Montpellier og Gasset var aðstoðarmaður hans hjá nokkrum félögum auk landsliðsins.

Síðasta starf hans var sem aðalþjálfari hjá Montpellier, þar sem hann lauk störfum í apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×