Veður

Kulda­skil á leið yfir landið

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður á bilinu núll til sex stig.
Hiti verður á bilinu núll til sex stig. Vísir/Vilhelm

Kuldaskil eru nú á leið austur yfir landið með rigningu eða slyddu, og snjókomu til fjalla.

Á vef Veðurstofunnar segir að skilin farafari hratt yfir og í dag megi búast við vestan- og suðvestanátt á landinu, víða 10 til 18 metrum á sekúndu með lítilsháttar skúrum eða éljum, en að létti til austanlands.

Hiti verður á bilinu núll til sex stig.

„Eftir hádegi eru líkur á hvössum vindstrengjum við fjöll á Norðaustur- og Austurlandi, en síðdegis dregur úr vindi, birtir til víðast hvar og kólnar.

Gengur í suðvestan kalda eða strekking á morgun, en hægari vindur sunnantil. Það þykknar upp vestanlands, dálítil væta þar eftir hádegi og hiti 1 til 7 stig, en léttskýjað og svalara um landið austanvert.

Á sunnudag er svo útlit fyrir hæglætis veður með lítilsháttar vætu um landið norðan- og vestanvert,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Gengur í suðvestan 8-15 m/s, en hægari sunnantil. Þykknar upp vestanlands, dálítil væta þar eftir hádegi og hiti 1 til 7 stig, en léttskýjað og svalara um landið austanvert.

Á sunnudag: Vestan og suðvestan 5-13, en lægir eftir hádegi. Skýjað með köflum og sums staðar dálítil rigning, en þurrt um landið suðaustanvert. Hiti yfirleitt 0 til 6 stig.

Á mánudag og þriðjudag: Vestan og suðvestan 3-10. Skýjað vestantil, úrkomulítið og hiti 1 til 6 stig, en bjart með köflum og svalara um landið austanvert.

Á miðvikudag (gamlársdagur): Vestlæg átt og rigning eða slydda með köflum, en þurrt suðaustanlands. Hiti 0 til 6 stig. Norðlægari um kvöldið og kólnar með éljum um landið norðanvert.

Á fimmtudag (nýársdagur): Norðlæg eða breytileg átt og bjart með köflum, en stöku él um landið norðaustanvert. Svalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×