Enski boltinn

„Held að ég gæti ekki hætt í fót­bolta“

Sindri Sverrisson skrifar
Jökull Andrésson var léttur og skemmtilegur í VARsjánni í vikunni.
Jökull Andrésson var léttur og skemmtilegur í VARsjánni í vikunni. Sýn Sport

„Ég er alveg Breti,“ segir markvörðurinn Jökull Andrésson. Hann flutti til Bretlands aðeins 14 ára, var þar í tíu ár og náði sér í ekta breskan hreim, áður en hann hélt heim og fann ástina á fótboltanum á ný með uppeldisfélagi sínu Aftureldingu.

Jökull átti sinn þátt í að koma Aftureldingu upp í efstu deild í fyrsta sinn en féll svo með liðinu í haust og gekk í kjölfarið í raðir FH.

Hann mætti sem gestur í VARsjána á Sýn Sport í vikunni, og ræddi í upphafi þáttar aðeins um hvernig það var að mæta sem táningur til Englands og þurfa að spjara sig þar.

Klippa: VARsjáin - Jökull fór ungur til Englands

Jökull segir það ekki hafa verið erfitt að fara svo ungur út:

„Nei, nei. Það var alveg veisla. Við fórum út öll fjölskyldan. Fengum hús og maður var með Axel brósa og litla brósa, mömmu og pabba. En þetta byrjaði að verða smá brekka í endann, þegar maður þurfti virkilega að „grinda“,“ sagði Jökull við þá Stefán Árna Pálsson og Albert Brynjar Ingason.

Stefán tók viðtal við Jökul fyrir Sportpakkann á Sýn fyrir skömmu, þar sem markvörðurinn sagðist hafa orðið ástfanginn af fótbolta aftur á Íslandi eftir að hafa verið kominn á dimman stað á Englandi, eins og hann orðaði það.

Stefáni fannst það gefa til kynna að Jökull, sem er 24 ára, hefði mögulega íhugað að hætta en þeir Jökull og Albert hlógu hreinlega að þeim möguleika.

„Ég held að ég gæti ekki hætt í fótbolta. Það væri bara ekki valkostur,“ sagði Jökull en brot úr þættinum má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×