Fótbolti

„Fólk veit ekki hvað maður gengur í gegnum heima hjá sér“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale endaði feril sinn á HM í Katar fyrir þremur árum síðan.
Gareth Bale endaði feril sinn á HM í Katar fyrir þremur árum síðan. Getty/Pablo Morano

Gareth Bale hefur nú afhjúpað sannleikann um það af hverju hann hætti í fótbolta aðeins 33 ára gamall.

Bale, sem var lengi dýrasti knattspyrnumaður heims, lauk ferli sínum fyrir þremur árum síðan og kom sú ákvörðun mörgum á óvart.

Síðasti leikur hans var síðasti leikurinn í riðlakeppni heimsmeistaramótsins í Katar þegar Wales tapaði 3-0 fyrir Englandi.

Í nýju viðtali segir sá velski í fyrsta sinn frá helstu ástæðunum á bak við ákvörðunina um að halda ekki áfram að spila fótbolta á hæsta stigi.

„Fólk veit ekki hvað maður gengur í gegnum heima fyrir. Pabbi minn, Frank, veiktist og það hafði mikil áhrif á ákvörðun mína. Ég áttaði mig á því að lífið er meira en bara fótbolti,“ segir Gareth Bale við GQ-tímaritið.

Pabbi hans, Frank, var áður húsvörður í skóla heima í Cardiff og veiktist þarna mjög skyndilega. Bale hefur áður talað um hversu mikilvægur pabbi hans hefur verið fyrir hann.

„Pabbi minn fórnaði öllu þegar ég var yngri. Hann fór með mig alls staðar. Án pabba míns og foreldra minna væri ég ekki þar sem ég er í dag,“ sagði Bale.

Nú, 36 ára að aldri, finnst honum engin ástæða til að sjá eftir ákvörðun sinni.

Síðasta tímabilið var með Los Angeles FC í bandarísku MLS-deildinni, en hann er auðvitað þekktastur fyrir tíma sinn hjá Tottenham og hjá Real Madrid þar sem hann vann Meistaradeildina fimm sinnum.

Fótboltastjarnan, sem áður var fjölmiðlafælin og hlédræg, er nú byrjuð að starfa sem sérfræðingur fyrir TNT Sports og CBS Sports.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×