Fótbolti

Mbappé með í kvöld og gæti bjargað starfi Alonso

Sindri Sverrisson skrifar
Kylian Mbappé þarf að deila sviðinu með Erling Haaland í kvöld.
Kylian Mbappé þarf að deila sviðinu með Erling Haaland í kvöld. Getty/Angel Martinez

Þrátt fyrir sögur af fingurbroti og eymslum í hné þá er Kylian Mbappé í leikmannahópi Real Madrid sem mætir Manchester City í ansi mikilvægum stórleik í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld.

Leikurinn gæti ráðið miklu um framtíð Xabi Alonso sem sagður er afar valtur í sessi hjá Real eftir aðeins einn sigur í síðustu fimm leikjum í spænsku deildinni.

Guillem Balague, sérfræðingur um spænska boltann, hefur til að mynda sagt að möguleikar Alonso á að halda starfinu séu litlir og að tap í kvöld gæti orðið síðasti naglinn í kistuna. Aðeins hálft ár er síðan Alonso tók við Real, eftir afar farsælan tíma með Leverkusen í Þýskalandi.

Eigi Alonso að halda starfinu gæti það breytt miklu að Mbappé verði klár í slaginn í kvöld. Hann hefur skorað samtals 25 mörk í spænsku deildinni og Meistaradeildinni á þessari leiktíð en skoraði þó ekki frekar en félagar hans í 2-0 tapinu á heimavelli gegn Celta Vigo á sunnudaginn.

Mbappé var ekki með á æfingu Real í gær og sögðu spænskir miðlar þá frá því að hann hefði brákað fingur. Hann ku einnig vera að glíma við hnémeiðsli en nú er orðið ljóst að hann verður að minnsta kosti í leikmannahópi Real í kvöld.

Leikurinn á Bernabéu hefst klukkan 20 að íslenskum tíma og er í beinni útsendingu á Sýn Sport 2 auk þess sem allir leikir kvöldsins verða að vanda í Meistaradeildarmessunni á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×