Enski boltinn

Ráð­leggur leik­manni United að hætta sóa tíma sínum þar

Aron Guðmundsson skrifar
Rio Ferdinand, fyrrverandi leikmaður Manchester United
Rio Ferdinand, fyrrverandi leikmaður Manchester United Vísir/Getty

Rio Ferdinand, fyrrverandi leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United, ráðleggur núverandi leikmanni félagsins, Kobbie Mainoo að sóa ekki ferli sínum þar.

Til mikils var ætlast af hinum tvítuga Mainoo á sínum tíma en honum hefur gengið erfiðlega að festa sig í sessi í byrjunarliði Rauðu djöflanna undir stjórn Ruben Amorim. 

Mainoo hefur þurft að verma varamannabekkinn oft hingað til á tímabilinu og er nú talað um að hann gæti farið á láni frá Manchester United í komandi félagsskiptaglugga. 

Ferdinand heldur úti þætti á YouTube og í nýjasta þættinum ræddi hann stöðu Mainoo sem spilaði aðeins sextán mínútur í sigri gegn Wolves í síðustu umferð.

„Ef ég væri í hans sporum þá færi ég frá félaginu, ég þyrfti að fara annað,“ sagði Rio um Mainoo.

„Hann var að spila fyrir enska landsliðið á síðasta Evrópumóti og var einn besti leikmaður liðsins á því móti. Það eru ekki margir leikmenn sem gætu sagt þannig sögu frá stórmóti. Núna hefur hann sóað átján mánuðum af sínum ferli hjá Manchester United.“

Að mati Ferdinand hefur Mainoo verið um sex mánuðum lengur hjá félaginu en hann hefði átt að vera. 

„Hann hefði átt að fara annað og ég er á því að umboðsmaður hans og fjölskylda þurfi að vernda hann. Hann gæti alveg sagt að hann elski Manchester United og vilji frekar vera áfram og berjast fyrir sínu sæti en bráðum verða liðin tvö ár þar sem að hann er í þessari stöðu. Þú getur ekki sóað tveimur árum af þínum ferli í þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×