Lífið

Rúv býður upp á hollenskt fréttastef

Jakob Bjarnar skrifar
Nýtt fréttastef fréttastofu Rúv var kynnt á dögunum. Sitt sýnist hverjum um hversu gott stefið er en mönnum þykir verra að ríkisstofnunin hafi leitað til hollenskra aðila varðandi gerð stefsins.
Nýtt fréttastef fréttastofu Rúv var kynnt á dögunum. Sitt sýnist hverjum um hversu gott stefið er en mönnum þykir verra að ríkisstofnunin hafi leitað til hollenskra aðila varðandi gerð stefsins. skjáskot

Fréttastofa Ríkisútvarpsins kynnti nýverið með stolti nýtt fréttastef. Viðbrögðin hafa verið blendin en það var fyrst að brúnin á mönnum fór að síga þegar spurðist að stefið væri ættað úr erlendri „djingla-verksmiðju“.

Hljóðheimurinn er unninn af hollenska fyrirtækinu Pure Jingles sem sérhæfir sig á þessu sviði.

Á Facebook-síðunni „Hljóðnördar án landamæra“ eru ýmsir íslenskir tónlistarmenn til að tjá sig um þetta framtak.

„Ah, erlent og fínt!“ segir Karl Olgeirsson tónlistarmaður. Og bætir því við að þetta sé ein jörð og eitt markaðssvæði. Einar Bárðarson markaðsmaður bætir því við að Rúv hafi greinilega pantað eitthvað sem „sounds like BBC – en fínt stef.“ Og Golli McLandish tónlistar- og hljóðmaður segist að eiginlega sé ekki hægt að tala um „stef“ í þessu sambandi.

Burtséð frá því hvort stefið sé gott eður ei má spyrja hvort Ríkisútvarpið hafi einhverjar skyldur gagnvart innlendri framleiðslu á þessu sviði? Þó það megi heita á gráu svæði gætu einkareknir fjölmiðlar á borð við Sýn eða Símann ef til vill leitað á erlend mið með svona nokkuð en Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu, hefur skyldum að gegna gagnvart íslenskum listamönnum. En þau þar á bæ kusu að leita út fyrir landsteina.

Í lögum um Ríkisútvarpið er ekki kveðið á um þetta með afdráttarlausum hætti en andi laganna er þó augljóslega sá:


I. kafli. Almenn ákvæði.

1. gr. Markmið.

Markmið laga þessara er að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er falin framkvæmd hennar eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill og skal rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Það skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.


Birgir Tryggvason hljóðmaður, sem titlar sig fjölrásahljóðbendil í símaskrá, hefur hljóðblandað ógrynni sjónvarpsþátta er er um þessar mundir að vinna við gerð Skaupsins. Biggi hefur auk þess samið og framleitt flest fréttastef síðustu áratugina bæði fyrir RÚV og Sýn. Hann á meðal annars stefið sem Sýn notar í sjónvarpsfréttum nú um stundir og Stöð 2 árin á undan.

Hvað sýnist honum um þetta?

„Það er þröngur hópur sem í raun er í þessum verkum í hjáverkum. Ég hef verið heppinn síðan ég gerði þetta fyrst 1999, fyrir Rúv, og tekið var í gagnið 2000 og svo Stöð 2 skömmu síðar. Jú, það hefði verið skemmtilegra að afhenda prikið einhverjum ungum og upprennandi héðan. En til þess ber að líta að við höfum flestir okkar samið stefstúfa fyrir erlenda aðila.“

En það hafa þá varla verið ríkisfyrirtæki?

„Nei ég hef reyndar ekki komið nálægt erlendum ríkisfyrirtækjum. En þetta er fínt stöff hjá Hollendingunum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.