Enski boltinn

Búist við að Salah verði hent úr hóp

Aron Guðmundsson skrifar
Mohamed Salah í leik með Liverpool. 
Mohamed Salah í leik með Liverpool.  Vísir/Getty

Búist er við því að Mohamed Salah ferðist ekki með Liverpool yfir til Ítalíu í dag og verði ekki í hóp á morgun er liðið mætir Inter Milan í Meistaradeildinni. 

Það er David Ornstein hjá The Athletic sem greinir frá þessu núna í hádeginu og hafa fleiri miðlar ytra sömu sögu að segja í framhaldinu.

Þar segir hann að lokaákvörðun í málinu liggi hjá Richard Hughes, yfirmanni knattspyrnumála hjá Liverpool. 

Viðtal sem Salah veitti eftir leik gegn Leeds United um helgina hefur valdið fjaðrafoki. Þar var Egyptinn ónotaður varamaður og sagðist vera gerður að blóraböggli fyrir slæmu gengi liðsins en Salah hefur verið á meðal varamanna Liverpool í síðustu þremur leikjum. 

Enn fremur sagði Salah að samband sitt við þjálfarann Arne Slot væri brostið. 

Salah æfði með Liverpool núna í hádeginu áður en liðið flýgur yfir til Mílanó, ekki er þó búist við því að hann verði í þeirri vél. 

Leikur Inter Milan og Liverpool í Meistaradeild Evrópu fer fram annað kvöld klukkan átta og verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn Sport Viaplay.


Tengdar fréttir

Íslenskir Púlarar í sárum: „Takk fyrir allt Mósi minn“

Íslenskir stuðningsmenn Liverpool eru í losti eftir að Egyptinn Mohamed Salah kastaði handsprengju eftir jafntefli liðsins við Leeds í gær. Allt logar hjá félaginu sem og stuðningsmönnum eftir að Egyptinn lét stjórnendur liðsins heyra það.

Owen um Salah: „Skil hvernig þér líður“

Michael Owen, fyrrum framherji Liverpool, sem varð síðar óvinsæll hjá félaginu þegar hann samdi við Manchester United, hefur lagt orð í belg varðandi framgang Mohamed Salah eftir leik Liverpool við Leeds í gær.

Skýtur á Salah: „Lætur þetta allt snúast um sig“

Danny Murphy, fyrrum leikmaður Liverpool og sérfræðingur í Match of the Day á breska ríkisútvarpinu, BBC, gagnrýndi framkomu Mohamed Salah eftir leik liðsins við Leeds í gær. Salah rauf þögnina við fjölmiðla eftir þriðja leik hans á varamannabekk liðsins í röð þar sem hann útilokaði ekki brottför frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×